145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við viljum hafa allt betra, þar með talið eftirlitið. En Fjármálaeftirlitið, sem er búið að stækka um 203% frá árinu 2007, eftir hrun þegar það var orðið væntanlega stærsta fjármálaeftirlit í heimi, þá sjáum við samt sem áður fall SpKef sem var búið að vara við hvað eftir annað, meðal annars hér í þingsal. Peningar og árangur, það er ekki alltaf samasemmerki þar á milli. Ef lífið væri excel-skjal og við vildum ná betri árangri einhvers staðar mundum við bara hækka og þá yrðu hlutirnir strax betri, og þá væri lífið einfaldara. Það bara er ekki þannig. Það á við um alla hluti, meðal annars heilbrigðiskerfið. Ég held að ekki hafi verið köllun eftir því að auka framlög um 160% til Mannvirkjastofnunar. Ég held að það sé ein ástæðan fyrir því að við erum með allt of hátt húsnæðisverð eða að við erum með allt of flókið kerfi. Þessi stofnun er með 1,2 milljarða í bundið eigið fé sem er nokkurs konar höfuðstóll. Síðan er Jafnréttisstofa. Hún hækkar um 140%. Ég kannast ekki við að menn hafi kallað eftir því að við þyrftum virkilega að bæta í þar en það má vera. Lyfjastofnun, ef við mundum einfalda lyfjakerfið — ég hef haldið margar ræður um það og hef gert nokkuð til þess að einfalda það — þá þyrftum við ekki á svona miklu eftirliti að halda. Svo eru stofnanir sem sinna sínu hlutverki mjög vel eins og Geislavarnir ríkisins sem hækka um 30% frá árinu 2007. Ég hef ekki heyrt neinn mann halda því fram að sú stofnun sé ekki að sinna hlutverki sínu. Þar er skipuritið algerlega flatt sem ég held að sé alveg til fyrirmyndar. En margt annað mætti nefna.

Hv. þingmaður nefndi opinbera heilbrigðiskerfið. Menn eru alltaf að bera saman epli og appelsínur. Ég veit að vísu ekki hvar í heiminum það kerfi er þar sem ekkert tryggingakerfi er á bak við. Kannski er það einhvers staðar til en ég veit ekki til þess. Norræna kerfið er þannig að við borgum 80% af því með sköttunum okkar og borgum í kringum 20% úr eigin vasa þegar við njótum þjónustunnar. Það er svona almenna reglan. Síðan er það bara mjög misjafnt, stundum eru það einkaaðilar sem veita þjónustuna, stundum opinber fyrirtæki. Það er ekki aðalatriðið. (Forseti hringir.) Hér eru menn að tala um að ef menn ætli að nýta einkarekstur, sem er búið að gera í áratugi, þá sé verið að breyta því í grundvallaratriðum. Það er einfaldlega tóm þvæla og misskilningur. Og ég veit að hv. þingmaður var ekki þar.