145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:25]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisræðu. Þar kom margt áhugavert fram, áhugaverðar ábendingar og athugasemdir. Ég ætla ekki að fara yfir efnisatriði ræðunnar heldur koma að öðrum þætti. Ég á mjög erfitt með að átta mig á hugmyndafræði Pírata þegar kemur að ríkisfjármálum. Eitt eru útgjöld, en til að standa undir útgjöldum þurfum við tekjur. Ég vil beina því til hv. þingmanns að skýra það út fyrir mér svo ég skilji skatta- og tekjuöflunarstefnu Pírata. Ég vil til dæmis vita hvort Píratar vilja margþrepa tekjuskatt á einstaklinga eða einn flatan gegnsæjan tekjuskatt. Ég velti fyrir mér hvort Píratar leggja áherslu á að skattleggja neyslu og ef svo er þá hvernig. Er það með virðisaukaskatti í einu þrepi eða margþrepa skattur með undanþágum? Er það með tollum og aðflutningsgjöldum eða með einhverjum öðrum hætti sem ég kann ekki að nefna?

Þá vil ég líka fá að vita hvernig Píratar hyggjast fjármagna almannatryggingakerfið, þ.e. lífeyrisgreiðslur til eldri borgara, örorkubætur og atvinnuleysisbætur. Er það með tryggingagjaldi? Hvers konar tryggingagjaldi? Er það sami skattstofn og nú er, sem er ofan á laun starfandi fólks? (Forseti hringir.) Hvað er skynsamlegt í þeim efnum? Telur hv. þingmaður að það tryggingagjald sem nú er (Forseti hringir.) sé sanngjarnt?