145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:22]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanni fyrir þetta svar. Það er náttúrulega mjög alvarlegt að verið sé að vega að fjárhagslegu sjálfstæði umboðsmanns Alþingis enda er þetta ein af stærstu og sterkustu eftirlitsstofnunum sem Alþingi hefur. Við í minni hlutanum biðjum um 15 millj. kr. aukafjárveitingu til umboðsmanns Alþingis svo að umboðsmaður geti sinnt frumkvæðisrannsóknum. Eins og staðan er núna, eins og kemur einmitt fram í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2014, þá getur hann lítið sinnt frumkvæðisrannsóknum þar sem ekki gefst tími miðað við þann starfskraft sem hann hefur. Minni hlutinn mundi vilja styrkja umboðsmann um 15 milljónir til þess að geta sinnt frumkvæðisrannsóknum betur. Það breytir því ekki (Forseti hringir.) ef verið er að taka 13 milljónir án þess að koma til móts við daglegan rekstur sem fylgir því að (Forseti hringir.) vera með eigin húsnæði. Það er náttúrulega mjög alvarlegt.