145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:24]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Af því að hv. þingmaður vændi hér stjórnarliða um að vera vælandi vil ég segja að mér fannst ansi mikil neikvæðni yfir ræðu hv. þingmanns, að fara yfir það sem hv. þingmaður talar í einu orðinu um að ekki sé verið að gera neitt fyrir landsbyggðina og svo í lok ræðu sinnar þuldi hún upp ýmislegt af því sem verið er að gera. Þar má nefna flugvelli, 400 milljónir. Það má nefna samgöngur í dreifbýli, bæði á einum lið og fleiri liðum, 400–500 milljónir. Fjarskipti, 200 milljónir og er þá komið í 500 milljónir. Heilbrigðisstofnanir og dvalarheimili á landsbyggðinni, 175 milljónir. Hafnir á landsbyggðinni 400 milljónir og ýmis önnur verkefni sem snúa að landsbyggðinni og eru í mörgum liðum, 500–1.000 milljónir. Þetta er hátt í 3 milljarðar sem fjárlaganefnd setur þarna inn í á milli umræðna. Auðvitað væri hægt að eyða löngum tíma og þyrfti eiginlega sérstaka ræðu í það að leiðrétta mikið af þeim rangfærslum sem komu fram í ræðu hv. þingmanns. En ég ætla bara að taka tvö atriði ef mér vinnst tími til.

Í fyrsta lagi segir hv. þingmaður að fjárlaganefnd sé ekki að gera neitt í innanlandsflugvöllum og vitnar til frumvarpsins sem er alveg hárrétt. Á síðasta ári voru settar 516 milljónir í flugvelli. Þar af komu 500 frá fjárlaganefnd. Það var tillaga sem hv. þingmaður sem stendur hér í þessum ræðustól núna flutti, að setja 500 milljónir í flugvelli á síðasta ári með því að krefja Isavia um arðgreiðslur. Og það er hárrétt, það var ekki inni í frumvarpinu þegar það kom núna. En fjárlaganefnd setur aftur fjármagn inn í þessa flugvelli. Þannig að það gætti ákveðins misskilnings hjá hv. þingmanni varðandi þennan lið.

Síðan varðandi ljósleiðaramálin og fjarskiptamálin. Þegar talað var um að þingmenn væru að tala um að búið væri að hringtengja ljósleiðara ruglaði hv. þingmaður mjög saman hugtökum. Það er búið að vera að hringtengja svæðið sem vantar ljósleiðarahringtengingu á. Það var gert á Ströndunum í sumar og gert frá Dalasýslu yfir í Stykkishólm. Það eru allt aðrir hlutir en að ljósleiðaravæða allt (Forseti hringir.) landið. Það er líka verið að vinna að því.

Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt þegar menn tjá sig í ræðustól að í fyrsta lagi fari þeir rétt með og skilgreini hlutina eins og þeir eru en fabúleri (Forseti hringir.) ekki bara út í eitt, virðulegur forseti, eins og gert var í allt of miklum mæli hjá hv. þingmanni.