145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, já, það er hægt að kalla það fabúleringar, það sem sagt er í þessum ræðustóli. Það á víst við um marga þingmenn sem hingað koma.

En það sem ég segi um háhraðatengingar er að sú skýrsla sem var gefin út af innanríkisráðuneytinu, og tveir hv. þingmenn í starfshópi stóðu að, gerði ráð fyrir að háhraðatenging til allra landsmanna á þeim svæðum sem eru utan markaðssvæða kostaði rúma 6 milljarða. Það sem ég er að segja er að þær 200 milljónir sem bætast nú við einar og sér duga ekki til að klára þetta verkefni nema á næstu 10, 15, 20 árum. Við höfum ekkert í hendi til að geta treyst því að sambærileg fjárhæð komi á næsta ári. Þannig er nú bara veruleikinn. Ég er ekki að fabúlera neitt með þetta, heldur eru þetta áhyggjur. Vissulega er verið að stíga skref í rétta átt. Það er gott. En þau skref eru hænuskref. Það þarf að gefa út yfirlýsingu um það að á næstu fjórum, hámark fimm árum, klári menn þetta verkefni. Þörfin er mikil.

Varðandi samgöngur almennt. Að vera að tína til 100 milljónir hér og 400 milljónir þar, það eru í stóra samhenginu bara smápeningar. Þetta eru fjármunir sem gætu verið hjá einhverju meðalstóru sveitarfélagi en ekki hjá ríkisvaldinu. Metnaðarleysið gagnvart samgöngumálum í landinu er auðvitað algert. Þessir hestavegir vítt og breitt um landið sem líkjast troðningum í Kákasusfjöllum eru hreinlega ekki boðlegir.

Um 23 milljarðar eru til samgöngumála í frumvarpinu, það er bara til skammar. Þegar maður fer á fund landshlutasamtakanna og hittir forsvarsmenn Vegagerðarinnar, þá eru þeir bara með tárin í augunum. Þeir horfa upp á að skera eigi (Forseti hringir.) niður í snjómokstri og vita ekki hvernig í ósköpunum þeir eigi að fara að því.