145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki hissa á því að hv. þingmaður hafi ekki treyst sér út í samgönguumræðuna og skýlt sér á bak við einhverjar fabúleringar og viðurkenningar og annað. Menn geta þá bara skrifað greinar í blöð og rakið það sem þeir eru að gera og þá er hægt að skrifa þar á móti og ná fram sannleikanum í þeim efnum.

Núverandi ríkisstjórn er með allt niður um sig í samgöngumálum, það er hinn kaldi veruleiki. Landsbyggðarþingmönnum hlýtur að sárna það og eru að reyna að telja kjósendum sínum trú um að það sé nú eitthvert góðgæti, lítið hér og lítið þar, í breytingartillögum sem þeir eiga að vera ánægðir með.

En ég spyr hv. þingmann til dæmis um Þingeyrarflugvöll. Ég vil nefna eitt þar. Það er til skammar að það sé eini varaflugvöllurinn fyrir Ísafjarðarflugvöll. Hann er hreinlega látinn drabbast niður. Hvar er metnaðurinn þar? Það er látið drabbast niður eins og margt annað úti á landi og á Vestfjörðum og víðar á landsbyggðinni. Menn ættu að fara að reyna að vinna (Forseti hringir.) heimavinnuna sína svolítið betur.