145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Ég hélt á tímabili að hún væri stödd í vitlausu fjárlagafrumvarpi því að það kvað við svartagallsraus allan ræðutímann, (Gripið fram í.) hér væri allt svart fram undan og þessi ríkisstjórn stæði ekki við nokkuð. Ég hélt einfaldlega að hún væri að lýsa síðasta kjörtímabili. Það er alveg hreint með ólíkindum að þingmaðurinn skuli ekki fagna — jú, hún fagnaði einu. Hún tók það sérstaklega fram. Það var einn jákvæður punktur í allri ræðu hennar.

Þetta eru landsbyggðaráherslur, þær breytingartillögur sem við erum með í þessari tillögugerð frá meiri hlutanum, fer mikið út á landsbyggðina. Til dæmis fer þetta í uppbyggingu í hennar kjördæmi og það er verið að styrkja flugvellina, það er verið að styrkja ljósleiðarann. Og það er einhvern veginn allt ómögulegt. Jú, hv. þingmaður gat hrósað ljósleiðaraverkefninu en það var lítið annað.

Talað er um að við uppfyllum ekki lagaskyldu okkar varðandi hækkun bóta ellilífeyrisþega og öryrkja. Ég ætla aðeins að fara yfir sannleikann í því máli. Það var svo að síðasta ríkisstjórn ruddist inn í örorkubætur og bætur ellilífeyrisþega án þess að blikka auga á síðasta kjörtímabili. Svo talaði þingmaðurinn um að þau hefðu komið með pening og lagt í kerfið. Það var þegar ríkisstjórnin var komin alveg upp að vegg. Þegar búið var að gera kjarasamninga og farið var að mótmæla á Austurvelli var þeim sem lægstar höfðu bæturnar rétt einhver ölmusa. Þetta er hjartgóða fólkið, virðulegi forseti, sem stendur hér og galar hvað núverandi ríkisstjórn sé vond. Núverandi ríkisstjórn hefur sett yfir 20 milljarða í þennan málaflokk frá því að hún tók við völdum á einungis tveimur og hálfu ári. (Forseti hringir.) Þetta er ekki boðlegt og það er ekki eftirspurn lengur eftir þessum málflutningi.