145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil vel að hv. þingmanni líði ekki vel að fá í raun og veru allt þjóðfélagið upp á móti sér. Þjóðfélagið og fólkið í þessu landi stendur með baráttu ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega fyrir því að þeir séu jafnsettir og aðrir þjóðfélagshópar. Þá varðar ekkert um þessa eilífu talnaleikfimi og samanburð núverandi ríkisstjórnar við fyrri ríkisstjórn. Við vitum vel að bætur varðandi atvinnutekjur og lífeyristekjur voru skertar. Þær voru skertar. En grunnlífeyririnn var varinn, yfir 190 þúsund (VigH: Það er rangt.) upp í 210–213 þúsund (Gripið fram í.) í áföngum. Hann var varinn. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki gert það sem hún hefði átt að gera, að leggja verulega fjármuni til þessara hópa (Forseti hringir.) þegar betur áraði heldur hefur hún afsalað sér tekjum upp á eina 7 milljarða frá því að hún tók við og 45 milljarða í alls kyns sköttum sem hún hefur lagt af þeim efnameiri og stórfyrirtækjum í landinu. (Gripið fram í: Segðu satt.) Ríkisstjórnin ætti að skammast sín. (Gripið fram í: Segðu satt.)