145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessar tillögur liggja fyrir. Hv. þingmaður veit mætavel að það verður áfram skatteftirlit og það er búið að bæta verulega í það. Það verður farið í það sem hann nefndi. Af hverju ætlar hv. þingmaður, sem er auðvitað fullkomlega út í loftið, að fjármagna þetta með því að taka 4 þús. milljónir í viðbót? Hann hefur ekkert fyrir sér í því. Af hverju setur hann ekki 5 þús. milljónir? Eða 8 þús. milljónir? Eða 2 þús. milljónir? Það er ekkert í hendi með bættu skatteftirliti. Enginn veit það betur en sá sem hefur verið í þeirri stöðu að vera hæstv. fjármálaráðherra eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur svo sannarlega verið.

Síðan spurði ég líka hv. þingmann um Bankasýsluna. Það er áhugavert að fá að vita það vegna þess að við höfum tekið miklar umræður um það. Hv. þingmaður hefur lagt mikla áherslu á að við nýtum Bankasýsluna og hefur haldið langar ræður um það. Þaðan er sú tala sem er lögð til grundvallar. Þannig er verklagið. Nú ætlar (Forseti hringir.) hv. þingmaður að segja bara við Bankasýsluna: Við hlustum ekkert á ykkur, við ætlum að taka hérna 8 milljarða (Forseti hringir.) í viðbót.