145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:27]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ágæta ræðu hans. Hann kom víða við og tók á þeim helstu efnisþáttum sem máli skipta, fannst mér, í yfirferð sinni. Við höfum síðustu daga hlustað á ræður stjórnarþingmanna og lesið greinar þeirra þar sem stjórnarmeirihlutinn bankar sér á brjóst fyrir stuðning sinn við landsbyggðina. Þar eru menn að mikla upp, að mínu mati, það sem verið er að stýfa úr hnefa, svolitlar upphæðir hér og þar til þess að setja plástra á svöðusárin.

Mig langar að heyra aðeins nánar frá hv. þingmanni hvaða augum hann lítur frammistöðu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og þá sérstaklega með tilliti til samgöngumálanna og fjarskiptamálanna, sem eru eins og við vitum grunnþættir varðandi afkomumöguleika heilu byggðarlaganna og stöðu þeirra og samkeppnishæfi og möguleika þeirra á því að nýta sér atvinnutækifæri sem eru að myndast með hratt vaxandi atvinnugreinum á borð við ferðaþjónustuna til dæmis. Hvernig kemur þetta hv. þingmanni fyrir sjónir lesið í gegnum fjárlagafrumvarpið?