145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu, þær hafa tilhneigingu til að vera áhugaverðar, sér í lagi þegar kemur að fjárlögum. Það sem mér þótti með því áhugaverðara sem hv. þingmaður sagði var að á rekstrargrundvelli væri ríkissjóður í kringum núllið. Mig langar að heyra meira um þetta, einkum hvernig áhorfendur geta gert sér grein fyrir því hver munurinn er á því að segja annars vegar að núna sé ríkissjóður í kringum núllið og hins vegar að hann skili um 5 milljörðum í plús, eins og meiri hlutinn vill meina, væntanlega á öðrum grundvelli sem ég vona að hv. þingmaður geti farið aðeins betur út í.

Hv. þingmaður nefndi oft á síðustu kjörtímabilum þær hættur sem steðjuðu að í ljósi mikillar ofþenslu. Ég hef mikinn áhuga á að heyra hvernig hv. þingmaður lítur á ástandið eins og það er núna. Telur hann ofþenslu í gangi? Telur hann hætt við ofþenslu, t.d. í kjölfar skattalækkana á röngum tímapunkti eða eitthvað því um líkt? Ég spyr vegna þess að ég heyri ekki alveg sama viðvörunartóninn og maður var orðinn vanur á tímabili frá hv. þingmanni, viðvörunartón sem reyndist síðan hárréttur eins og við þekkjum öll. Það eina sem hægt er að gagnrýna við þann málflutning er það að hann varði það lengi að fólk hætti að taka mark á honum á endanum, en það hefði átt að taka mark á honum.

Ég velti sérstaklega fyrir mér hvernig við getum veitt betri innsýn í það hvernig þróun ríkisbúskaparins er, vegna þess að fyrir áhorfendur er umræðan um það hvort við séum á núllinu eða með 5 milljarða eða 15 milljarða í plús villandi. Þegar við skoðum fjárlagafrumvarpið og förum inn í hið svokallaða „lingó“ verður þetta kannski augljóst, en ég held að það (Forseti hringir.) væri heppilegt ef þingmaðurinn gæti útskýrt þetta aðeins betur.