145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Annars vegar varðandi afkomuna og hvernig á að mæla hana hjá ríkinu. Mjög góður mælikvarði er að mæla afkomuna á rekstrargrunni án svokallaðra óreglulegra liða. Það má deila um það hvað má nákvæmlega flokka til hliðar, taka til hliðar ef við viljum reyna að mæla afkomuna án óreglulegra liða. Óreglulegir liðir eru hvað? Í grófum dráttum óvæntar tekjufærslur eða gjaldfærslur á einhverju sem er óreglulegt milli ára. Ef tapaðar skattkröfur stökkva upp eitt árið þá ýtum við því kannski til hliðar. Ef við verðum allt í einu að gjaldfæra stóra skuldbindingu hjá ríkinu sem við gerum ekki ráð fyrir að fá í andlitið á hverju ári þá getum við tekið það til hliðar. Við erum að reyna að nálgast það að mæla undirliggjandi afkomu ríkisins eins og hún gæti verið í jafnvægisástandi. Það er afkoma án óreglulegra liða og mér sýnist að hún sé mjög nálægt núllinu 2014, 2015 og verði það líka 2016. Og hún er það í raun og veru ef við tökum arðgreiðslurnar til hliðar, viðbótararðgreiðslurnar. Eigum við að taka þær allar til hliðar? Nei, kannski ekki, en a.m.k. helminginn vegna þess að við getum ekki reiknað með því að t.d. Landsbankinn greiði 25, 30 milljarða í arð mörg ár í röð. Við vitum að hagnaður hans er aðallega vegna uppfærslu á eignasafninu. Það tekur enda. Ég mundi taka eitthvað af því til hliðar.

Hin leiðin væri að mæla þetta með svokölluðum hagsveifluleiðréttum jöfnuði, að taka hagsveifluleiðréttan jöfnuð ríkisins og þá held ég að hann væri líka mjög nálægt núlli vegna þess að við ættum þá að draga aðeins frá tekjunum sem þenslan í þjóðfélaginu skilar.

Þá er ég kominn að hinu síðara, hversu alvarlegt ástandið er að því leyti. Ég orðaði það þannig um daginn að hitinn væri að vaxa en það væri ekki kviknað í. Það sem hefur lagst með okkur og valdið því að þenslan er alla vega á yfirborðinu ekki enn eins hættuleg og (Forseti hringir.) annars væri er fyrst og fremst tvennt, það er stórlækkun olíuverðs og hrávöruverðs, (Forseti hringir.) sem skilar okkur inn í landið lægri verðbólgu, og það er styrking gengisins.