145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Önnu Margréti Guðjónsdóttur fyrir prýðisgóða ræðu. Þar var víða komið við, eins og eðlilegt er þegar jafn stórt mál og eitt stykki fjárlagafrumvarp er undir. Mig langar að taka undir orð hv. þingmanns í upphafi ræðunnar hvað varðar albönsku fjölskylduna sem ég held að við höfum öll hugsað til með hryllingi í dag; þær aðstæður sem hún var sett í og hvernig henni var vísað frá Íslandi. Það er alveg greinilegt, af þeim fjölda tölvupósta sem þingmönnum hefur borist í dag, að þetta hefur snert við þjóðinni og mjög mörgum er það misboðið að þeir setjast niður við tölvuna og skrifa okkur.

Mig langar samt að ræða þessi mál við hv. þingmann í aðeins stærra samhengi, varðandi stöðuna í heiminum í dag. Nú er það svo að hingað er að koma hópur fólks á næstu dögum frá Líbanon — ég á alltaf erfitt með að nota orðið kvótaflóttamenn, mér leiðist það orð, en það segir úr hvaða kategoríu sá hópur er tekinn inn — og mér finnst það alveg frábært. En mig langar að spyrja þingmanninn hvort hún telji að við getum ekki gert enn betur þegar kemur að móttöku flóttamanna, kannski reynslunni ríkari frá því í dag, ekki síst hælisleitenda, sem koma hingað á eigin vegum en ekki í skipulögðum hópi á vegum stjórnvalda. Ég spyr hvort við bæði getum ekki gert betur og hvort við eigum ekki að gera betur.