145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:29]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég missti því miður af fyrri hlutanum en kom inn í þann kafla þar sem hv. þingmaður harmaði það að hér hefði ekki tekist að taka upp evruna. Það vakti svolítinn áhuga hjá mér. Ég get vel skilið að margir hafi haft áhuga á evrunni og aðild að myntbandalagi fyrir nokkrum árum, áður en hrakningar myntbandalagsins hófust fyrir alvöru. Síðan hefur mjög margt gerst. Við höfum náttúrlega öll lesið blöðin og fylgst með því sem þar hefur átt sér stað og hvernig þeim þjóðum hefur reitt af sem eru bundnar í þetta myntbandalag og hafa látið af því að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil.

Þá sjáum við nokkur dæmi um ríki sem hafa farið alveg gríðarlega illa út úr þeirri kreppu sem herjar núna á myntbandalagið og herjar enn á myntbandalagið. Við getum tekið nokkur dæmi: Grikkland. Menn vilja helst ekki taka það dæmi því að það er svo ólíkt Íslandi. Þá getum við tekið Finnland, sem er líka með evruna. Þeir áttu glæsileg fyrirtæki, sem öll voru byggð upp meðan þeir voru með finnska markið, Nokia og gríðarlega öflugan iðnað. Alveg glæsilegt land sem hefur verið til fyrirmyndar í alla staði í sínum efnahagsaðgerðum og hefur tekist á við kreppuna. Svo ber maður það saman við Svíþjóð sem hefur fengið að halda sínum gjaldmiðli, er vissulega í Evrópusambandinu og þeim í Svíþjóð er skylt að taka upp evru, hafa enga undanþágu frá henni en þeir hafa dregið það. Pólverjar hafa líka dregið það. Hvers vegna eru þessi ríki að draga það?

Hefur hv. þingmaður ekki fengið neinar efasemdir um að þetta sé gott myntbandalag? Nóbelsverðlaunahagfræðingar hafa hver á eftir öðrum fordæmt þetta myntbandalag og sagt það vanskapnað og andvana fætt. Hefur hv. þingmaður kannski fundið lausn á vandamálum myntbandalagsins?