145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:31]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina hjá hv. þingmanni. Ég tek að sjálfsögðu undir það að evran hefur verið okkur Evrópusinnum dálítið umhugsunarefni að undanförnu og hún hefur veikst mjög síðastliðin þrjú, fjögur ár eða svo. Það eru auðvitað komnir í ljós ákveðnir brestir í evrusamstarfinu og það liggur fyrir að styrkari miðlæga stjórn þurfi til að geta haldið þeim gjaldmiðli. En það breytir ekki því að krónan er mjög erfiður gjaldmiðill og þegar við stjórnmálamenn ræðum um fjármál ríkisins verðum við að horfast í augu við það að ótrúlega erfitt er að reka samfélag sem gengur í gegnum jafn miklar sveiflur og við gerum stöðugt.

Í sjálfu sér er innflutningur hagstæður í augnablikinu. Því erum við í augnablikinu kannski mjög ánægð með að hafa krónu fyrir íslensk heimili. Fyrirtæki í útflutningi eru ekki jafn ánægð. Þau eiga erfitt uppdráttar að mörgu leyti vegna þess að tekjur og áætlanir sem voru gerðar í upphafi ársins þegar evran var í 152 krónum, ef ég man rétt, en er komin niður í 140 krónur í dag, það er ógjörningur eða illmögulegt að reka fyrirtæki í slíku umhverfi og geta aldrei gert raunhæfar og áreiðanlegar áætlanir. Ég segi þess vegna að við verðum að hugsa framtíðargjaldmiðilinn einhvern annan en íslensku krónuna. Í ljósi þess að stærsti hluti útflutnings okkar er til Evrópu og á Evrópumarkað og mun verða það áfram, alveg sama hvernig allt velkist og fer, (Forseti hringir.) þá munum við halda áfram að eiga mest viðskipti við Evrópuþjóðir.