145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þannig að við sem vinnum og störfum eftir hugmyndafræði sjálfstæðisstefnunnar trúum á opið og lýðræðislegt samfélag. Hluti af því er að bjóða velkomna einstaklinga sem hingað vilja koma og hér vilja starfa vegna þess að í kjarna stefnu Sjálfstæðisflokksins felst trúin á einstaklinginn og trúin á að hver og einn eigi að geta uppskorið eins og hann sáir. Það er kjarni í sjálfstæðisstefnunni sem gerir það að verkum að sjálfstæðismenn eru og eiga að vera fremstir í flokki þeirra sem vilja opna landið og gera fleiri einstaklingum mögulegt að koma hingað og starfa. Okkur vantar líka einfaldlega fleiri vinnandi hendur. Sumir segja að þannig megi ekki tala um þessi mál en það er bara staðreynd. Okkur vantar fleiri vinnandi hendur og við eigum að bjóða þá einstaklinga sem hingað vilja koma velkomna.

Ég átta mig á því að það er hluti af sjálfstæðismönnum, þeim sem hafa kannski verið á jaðrinum (Forseti hringir.) í okkar flokki, sem vilja ekki hlusta á þessi viðhorf. Þeir dreifa þeim sögusögnum að við sem erum hægri menn og tölum með þessum hætti eigum að vera í öðrum flokki. Við skulum passa okkur á að taka ekki undir það.