145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:12]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er þannig sem Ísland er að gera þetta núna. Við erum með þetta aðskilið. Við erum annars vegar með peningana sem fara í þróunarsamvinnu og svo hins vegar útgjöld til hælisleitenda. Tæknilega séð má hins vegar setja þetta saman. Ef við mundum gera það mundi hlutfallið sem Ísland er að verja til þróunarsamvinnu fara upp í 0,25%. Ég held meira að segja að sum Norðurlanda geri þetta svona, reikni þetta saman. En eins og ég rakti í ræðu minni er ég því mótfallin að við förum þá leið. Mér finnst að við eigum bara að halda þessu aðskildu vegna þess að þetta eru tvö gríðarlega ólík en mikilvæg verkefni. Við eigum líka að hafa línurnar svolítið skýrar í þessu, hvað er fyrir hvað.