145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Tekjuskattsbreytingarnar sem boðaðar eru á árinu 2016 og 2017 kosta samtals 11 milljarða, þar af 5,5 milljarða á árinu 2016. Á sama tíma er Landspítalinn sveltur. Vegakerfið er svelt. Menntakerfið er svelt, eins og fram hefur komið í umræðum hér bæði frá stjórnarandstæðingum og stjórnarliðum, og svo mætti lengi telja. Þetta er gert til þess að ríkisstjórnin geti sagst hafa lækkað skatta og einfaldað skattkerfið, þá er það forgangsverkefni. Síðan reyna menn að hreyfa sig innan rammans sem skorinn er. Barnabæturnar byrja að skerðast við 200 þús. kr. Skerðingarmörkin detta mjög hratt inn. Ég vil spyrja hv. þingmann um þessa þróun: Hvað sér hún fyrir sér ef svo ólíklega vill til að þessi ríkisstjórn verði hér annað kjörtímabil? Hvernig telur hv. þingmaður að það muni það enda?