145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað hlýtur það alltaf að geta gerst, sérstaklega þegar stór mál eru undir, að eitthvað gleymist. En það er engu að síður alveg rosalega alvarlegt að það gerist. Auðvitað hljóta allir að róa að því öllum árum að slíkt gerist ekki. Það sem mér finnst umhugsunarverðast — nú hef ég aldrei setið í hv. fjárlaganefnd, hef einungis dottið þar inn á hluta af einum eða tveimur fundum — er einmitt hvað starfið hefur, miðað við aðrar nefndir sem ég hef meiri reynslu úr, verið óreiðukenndara og ekki jafn skipulagt og í öðrum nefndum. Ég veit ekki hvort það var tilviljun á þeim brotum úr fundum sem ég kom inn á. En þegar maður heyrir fleiri og fleiri sögur af ýmsu sem betur mætti fara úr starfinu þar og svo (Forseti hringir.) af tillögum sem gleymast þá er heildarmyndin sem teiknast upp ekki alveg nógu jákvæð.