145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Hv. þingmaður kom inn á örorkukerfið allt saman og almannatryggingakerfið og nefndi að hún teldi ekki að örorkubætur ættu nauðsynlega að vera lægri en lágmarkslaun. Gott og vel. Ég er sammála því. Hins vegar velti ég fyrir mér hvort það geti verið sniðugra að forgangsraða þannig að reyna að losna við tekjutengingar í þeim málaflokki. Sömuleiðis þegar kemur að ellilífeyri, eða reyndar sérstaklega þegar kemur að ellilífeyri. Jafnvel svokallaðir hægri menn, eins og hæstv. fjármálaráðherra reyndar, alla vega fyrir kosningar, eru sammála því að afnema eigi tekjutengingar ellilífeyris, eðlilega, þar sem það er hvetjandi, atvinnuskapandi og frumkvæðishvetjandi. Maður hefði haldið að það væri nærri lagi að fara í þannig aðgerðir (Forseti hringir.) fyrst og eins væri minni pólitískur ágreiningur um það. (Forseti hringir.) Hvernig telur hv. þingmaður best að forgangsraða í sambandi við þetta?