145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna því að þetta er alveg gríðarlega mikilvæg umræða. Ég held að það sé best fyrir einstaklinginn, ekki bara fjárhagslega heldur einnig félagslega, að taka þátt í samfélaginu. Fyrir fullorðið fólk er þátttaka á vinnumarkaði það helsta sem við gerum á daginn. Ég held að þess vegna sé mjög mikilvægt að hafa hvata til þess að öryrkjar fari út á vinnumarkaðinn. Það verður hins vegar ekki fram hjá því litið að vinnumarkaðurinn er erfiður. Það er erfitt fyrir fatlað fólk og öryrkja að fá vinnu þó svo að viljinn til þess að vinna sé fyrir hendi. Svo er það líka bara því miður þannig að hluti öryrkja er í þeirri stöðu að eiga mjög erfitt með að vera í vinnu nema með miklum stuðningi. Það fólk þarf auðvitað líka (Forseti hringir.) að komast af fjárhagslega. Ég held því að þetta sé ekkert annaðhvort eða. Það er nokkuð sem hugsa þarf um á sama tíma.