145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að þetta er ekkert annaðhvort eða. 100% öryrkjar hafa til dæmis eðli málsins samkvæmt ekki um neitt að velja. Ég er sammála því sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að það er ekki sjálfgefið að fólk sem er örkumla sé sjálfkrafa fátækasta fólkið á landinu og nái ekki lágmarkslaunum. Hins vegar eru ansi margir sem eru 75% öryrkjar eða jafnvel öryrkjar sem geta unnið eitthvað smávægilegt, en þeir gera það ekki vegna þess að þeim er hegnt fyrir það með tekjuskerðingum. Eins og hv. þingmaður ýjaði að og ég tek heils hugar undir og hef sagt hér áður, er það ekki bara skerðing á peningum, það er í reynd skerðing á frelsi.

Í ljósi kosningaloforða hæstv. fjármálaráðherra fyrir kosningar varðandi afnám tekjutengingar ellilífeyris hefði ég haldið að það væri pólitískt sniðugt að byrja á þeim endanum, að fá það á hreint, þá væri búið að laga vanda margra, ekki allra. En alla vega ættu allir að geta verið hlynntir því að þannig yrði féð nýtt best vegna þess að þá kemur á móti meira (Forseti hringir.) framtak, meiri vinna, meiri verðmætasköpun.