145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið. Það er ekki einfalt svar hvernig við tryggjum að enginn falli á milli. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur. Þeir hópar sem eru til dæmis hjá félagsþjónustu sveitarfélaga og leita að húsnæði og framfærslustyrkjum eru einhleypir karlar og einstæðar mæður. Leið til að mæta því fólki er til að mynda í gegnum aukinn húsnæðisstuðning, einstæðum foreldrum í gegnum barnabætur með lægra tekjuskattsþrepi fyrir þá lægst launuðu, en ekki síður með góðri almannaþjónustu í heilbrigðiskerfinu og velferðarkerfinu sem er ódýr eða gjaldfrjáls. Sú þjónusta skiptir mjög miklu máli fyrir lífsgæði okkar og hvernig við stöndum gagnvart öðrum (Forseti hringir.) í samfélaginu.