145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:21]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og hæstv. innanríkisráðherra. Það vantar meiri fjármuni í þennan málaflokk. Ég hef komið inn í tvö fangelsi á Íslandi, Litla-Hraun og fangelsið á Akureyri. Húsnæðið á Akureyri er allt annað og betra en á Litla-Hrauni, en þar er t.d. aðstaða fanga til vinnu nánast engin og útivistaraðstaða beinlínis skelfileg. Þegar maður kemur inn í þessi tvö fangelsi á Íslandi og mér skilst að Hegningarhúsið sé miklu verra, enda eru gerðar athugasemdir við það, við brjótum mannréttindi með því að nota það og erum á undanþágu, þá veltir maður fyrir sér hvers konar samfélag það sé sem búi til slíkar aðstæður fyrir fólk sem brýtur af sér og þarf að sæta refsingu og á að vera í betrunarvist. Umgjörð þessara stofnana ber íslensku samfélagi ekki fagurt vitni.