145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:22]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann aðeins út í nefndarálit, þ.e. það sem fram kemur í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar og lýsir að mínu mati bæði vinnubrögðum og viðhorfi þeirra sem undir það skrifa til fjárlagavinnu. Á síðasta kjörtímabili var unnið mikið verk við það, ég tek það sem dæmi, að eyða svokölluðum safnliðum og setja í fastan og góðan farveg, gegnsæjan, faglegan, þar sem það fengi umfjöllun og þingmenn væru ekki að úthluta verkefnum eftir behag og einhverjum óskilgreindum reglum.

Dæmi um þetta er til dæmis Vegagerðin þar sem verið er að afhenda 235 milljónir til ýmissa framkvæmda um landsbyggðina og önnur verkefni til hafnargerðar upp á 400 milljónir sem verið er að sáldra út til 11 verkefna, að því er virðist algerlega óskilgreindra. Það liggja engin gögn að baki. Það er ekki einu sinni til samgönguáætlun. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér í því að þetta sé afturför við fjárlagagerð, það sé verið að fara aftur til verri tíma. Jafnvel enn aftar en var þó gert hér fyrir síðasta kjörtímabil.

Ég spyr hvort hún geti verið mér sammála um það og velt því fyrir sér hvað valdi því að meiri hluti fjárlaganefndar ákveður að vinna með þessum hætti.