145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er hjartanlega sammála því. Þetta er afturför. Þegar verið er að úthluta fjármunum á að gera það út frá fyrir fram gefnum reglum og skýrum viðmiðum og út frá einhverjum áætlunum, ekki að geðþótta eða sem fyrirgreiðslu. Þetta er sannarlega afturför, en svo má kannski segja að þetta sé þó framför frá því sem var í upphafi kjörtímabils þegar hæstv. forsætisráðherra útdeildi fé með SMS-skeytum. Kannski er þetta skref til að komast út úr því. Ég skal ekki segja. En það er furðulegt að bæði til vega- og hafnamála sé verið að útdeila fé með þessum hætti en ekki í samræmi við samgönguáætlun. Það sætir furðu.