145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekkert að dylgja neitt varðandi Landspítalann. Hv. formaður fjárlaganefndar sagði að forsvarsmenn Landspítalans væru að kvarta, það væri eilíft kvart í þeim. Það las ég í fjölmiðlum. (Gripið fram í: Hún sagði það ekki.) Ég sat ekki við hliðina á henni þegar hún sagði það.

Varðandi einkarekstur í heilsugæslunni þá er ég ekki fylgjandi honum. Ég tel að það sé verið að gefa í skyn að vandi heilsugæslunnar verði leystur með einkarekstri. Vandi heilsugæslunnar er fyrst og fremst langvarandi fjárskortur og skortur á pólitískri forustu um að skapa þau tæki sem þarf til að heilsugæslan geti verið fyrsti viðkomustaðurinn. Nú þegar ekki liggur fyrir greining á þörfum á heilsugæslu á mismunandi svæðum og ekki liggur fyrir kröfulýsing (Forseti hringir.) þá treysti ég því ekki að hæstv. heilbrigðisráðherra muni gera þetta með sómasamlegum hætti.