145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn sem töluðu á undan eru reynslumiklir hv. þingmenn, þekkja málin mjög vel og hafa bæði verið í minni hluta og meiri hluta á þingi, í það minnsta sá sem fyrst talaði. Það er ekki alveg svo gott að fjárlaganefnd setjist niður og reikni út launabreytingar eins og hv. þingmenn vita. Við þurfum að reiða okkur á ráðuneytin þegar kemur að því og það vita hv. þingmenn mætavel.

Mér finnst að ég þurfi ekki að útskýra það sem menn vita, að við tökum þessi mál aftur inn til nefndar og förum þá yfir það en það hafa orðið mjög miklar breytingar á kjaraumhverfinu, meiri en oft áður. Þó að ég harmi það (Gripið fram í.) að allar upplýsingar séu ekki komnar fram held ég að það sé hæpið að tala með þessum hætti. Við skulum bara klára þessa umræðu. Menn hafa hér gott tækifæri til að gagnrýna bæði (Forseti hringir.) ríkisstjórnina og fjárlaganefnd í umræðunni og svo tökum við málið á milli umræðna til nefndar og förum yfir málin. (Gripið fram í.)