145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vona að ég misskilji einhverja hv. þingmenn, ég vona að þeir hafi ekki látið að því liggja að okkar tveir góðu ritarar sem starfa fyrir fjárlaganefnd ættu að fara yfir allar forsendur kjarasamninga og reikna út launabætur. Ég vona að enginn trúi því eða haldi að mál séu þannig. Ég geri ráð fyrir að þar hafi verið um einhverja hótfyndni að ræða.

Eðli málsins samkvæmt er með þetta eins og mjög margt annað í forsendum fjárlaga, kannski flest, að við reiðum okkur á upplýsingar frá ráðuneytunum. Þetta er mjög bagalegt og það má skamma hv. fjárlaganefnd fyrir ýmislegt en það er mjög langsótt ef einhver trúir því að hv. fjárlaganefnd setjist yfir þá útreikninga. Það hefur verið reglan hjá forustu þessarar fjárlaganefndar að menn reyna að koma til móts við allt það sem minni hlutinn hefur farið fram á og þess vegna voru meðal annars haldnir tveir fundir sem (Forseti hringir.) tengjast ákveðnu málefni sem við erum að ræða. Við munum hittast í fyrramálið og við reynum auðvitað að verða við því sem hv. þingmenn í minni hlutanum vilja fara yfir og sækja gögn eins og við höfum gert í öllum öðrum málum.