145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:53]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta eru ekki traustvekjandi vinnubrögð. En það gengur eiginlega fram af mér að hv. varaformaður fjárlaganefndar, Guðlaugur Þór Þórðarson, skuli vísa á nefndarritarana, (GÞÞ: Nei, ég var að segja að væru ekki þeir. …) leiða talið að nefndarriturunum í þessu samhengi. (GÞÞ: Nei, ég var að segja að …) Ábyrgðin er nefndarinnar og auðvitað sérstaklega forustu hennar. Nú er komið í ljós að milljarður gleymdist. Því verður ekki vísað neitt nema til nefndarinnar, hvar svo sem mistökin áttu sér stað. Það skiptir ekki öllu máli hvort þau áttu sér stað við útreikninga í fjármálaráðuneytinu eða einhver handvömm varð í nefndinni. Ábyrgðin er nefndarinnar, en fyrst og síðast þingsins að afgreiða hér vel unnin og rétt fjárlög. Ég er þingmaður í þessum sal og meðábyrg (Forseti hringir.) í þeirri umfjöllun sem hér fer fram um fjárlögin og þess vegna krefst ég þess, virðulegi forseti, að þessum þingfundi verði slitið og fjárlaganefnd hittist þegar í stað, strax í dögun, með fjármálaráðuneytinu og það verði ekki fundað aftur um fjárlögin fyrr en við erum komin með réttar upplýsingar.