145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Leikrit er hafið í kringum þetta. Við getum auðvitað öll litið í eigin barm með það að einhver svona mistök skuli verða í fjármálaráðuneytinu. Það er verið að leiðrétta þau. Þetta er örugglega ekki í fyrsta skipti og örugglega ekki í síðasta skipti sem slíkt gerist. Það er fyrst og fremst fagnaðarefni sem kristallast í þessum upplýsingum, sú hagræðing sem á sér stað í skólakerfinu, stytting framhaldsskólans og hækkun launa til kennara á grunni hennar. Við getum gert betur við kennarana og skilað væntanlega enn betri nemendum og menntun fyrir börnin okkar inn í framtíðina.

Svo heyrist mér komin ákveðin þreyta í mannskapinn. Ég sé að meira að segja hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem talaði um að það væri ekkert mál að sitja hér lengi er ekki lengur í salnum. Hann er kannski farinn heim að hvíla sig. Ég tel fulla ástæðu til að halda áfram fundinum, virðulegi forseti. Ábyrgðin er auðvitað hjá minni hlutanum á því hvað fundur stendur hér lengi. Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar (Forseti hringir.) á þeim bæ um það hversu lengi minni hlutinn vill tala um þetta mál. Meðan það liggur ekki fyrir, meðan þær upplýsingar eru ekki komnar fram og óskir hans um fundartíma og hversu lengi verður talað í þessu máli, verðum við bara að halda áfram.