145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek eiginlega bara undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Mælendaskráin er löng og ég beini því til forseta að kannski væri ráð að forseti setti sig í samband við þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar og fengi hugsanlega upplýsingar um það hversu lengi stjórnarandstaðan hygðist tala í þessu máli. Ég get sagt fyrir hönd (BjG: … stjórnar… á mælendaskrá.) Framsóknarflokksins að hann er tilbúinn að setjast niður og klára að semja um umræðutíma um þetta mál sem hefur staðið gríðarlega lengi. Á meðan þingflokksformenn (BjG: … þingflokksformenn …) stjórnarandstöðunnar eru ekki tilbúnir að semja um umræðulok á þessu máli sem er orðin gríðarlega löng umræða (Gripið fram í: … lok?) held ég að ekkert annað sé í boði en að halda þessari umræðu áfram hér inn í kvöldið og nóttina. Ekki stendur á mér að vera í salnum og fylgjast með þessum umræðum eða hér í þinghúsinu. Þetta eru líflegar og skemmtilegar umræður og margt nýtt kemur fram í umræðunni. Á meðan stjórnarandstaðan vill tala í málinu og er ekki tilbúin að ljúka umræðum eða í það minnsta (Forseti hringir.) láta okkur vita hvenær umræðum lýkur er auðvitað ekkert annað að gera en að halda þessu áfram. Ég hvet forseta til að setja sig í samband við þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar til að freista þess að fá upplýsingar um hversu lengi stjórnarandstaðan hyggst tala í málinu.