145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:00]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekkert að kveðja mér hljóðs og vil bara gjarnan að við höldum áfram að ræða þetta mál, en sá mig eiginlega tilknúna vegna orða hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar. Við erum hér að ræða stærsta mál ríkisstjórnarinnar og höfum átt mjög góðar umræður í þingsal, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstaðan. Ég skildi ekki alveg hvað hv. þingmaður átti við þegar hann talaði um það hvenær við ætluðum að hætta að tala. Ég er búin að fara í eina ræðu og fer væntanlega ekkert í aðra en áskil mér rétt til að fara í einhver andsvör. Mér fannst ýjað að því að hér væri eitthvert málþóf í gangi. Ég upplifi það bara alls ekkert þannig. Ef við eigum ekki að ræða fjárlögin, hvað eigum við þá að ræða?