145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:02]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sá mig eiginlega tilknúinn til að koma aftur upp, bæði vegna ummæla hv. þm. Björns Vals Gíslasonar og hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur. Sá sem hér stendur er ekki að kvarta yfir því að hér séu umræður inn í nóttina en mér fannst ég skynja á stjórnarandstöðunni í umræðu um fundarstjórn á undan mér að þar væri ákveðinn pirringur yfir því að við ætluðum að funda inn í nóttina. Ég var að fagna því að við funduðum inn í nóttina og sagði að ég sæi ekki annan möguleika í stöðunni á meðan þingflokksformenn geta ekki náð saman um það hvenær þessari umræðu ljúki. Ég er að bjóða fram allan vilja minn til að þingflokksformenn geti fundið út úr því hvenær þessari umræðu geti lokið. (Gripið fram í.) Á meðan svo er ekki og menn eru ekki tilbúnir til þess eigum við engan annan leik en að vera í þessum umræðum inn í nóttina og jafnvel inn í morguninn eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson lagði til. Ég hvet til þess að þessari umræðu verði haldið áfram en er á hvaða tímapunkti sem er tilbúinn að setjast niður með þingflokksformönnum og ræða möguleikann á því að við getum endað þessa umræðu og haldið atkvæðagreiðslu um þetta mál vegna þess að þetta er auðvitað stórt og mikið mál.