145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er greinilega svolítill pirringur kominn í fólk hérna. (BjG: … bara dónaskapur.) Það er auðvitað leitt að svo skuli vera þegar margir eru í sínum fyrstu ræðum. Sennilega hefur engin önnur ræða enn verið haldin.

Þetta er það fyrirkomulag sem er boðið upp á í þingsköpunum. Það er hálfömurlegt að formenn þingflokkanna, þar með talið minni hlutans, skuli ekki geta sest niður og klárað það hvað við ætlum að taka mikinn tíma í að ræða fjárlög við 2. umr. (BjG: Þingmaðurinn veit …) Á hátíðarstundum er talað um að við eigum að tala saman og leysa málin. Tölum saman. Hv. þm. Helgi Hrafn: Tölum saman og leysum málin þannig. Þannig leysast málin, er það ekki? Af hverju setjast ekki þingflokksformenn niður og leysa þetta mál, (Gripið fram í.) klára það og segja bara: Heyrðu, við ætlum að taka tvo daga í þetta, þrjá daga, við klárum þetta á þriðjudaginn í næstu viku? Og hvaða tíma viljum við ráða? Við ætlum bara að semja um það og verða (Forseti hringir.) sammála um að við ætlum að klára þetta á ákveðnum tíma. Þá verður þetta ekkert vandamál. Á meðan allt er upp í loft og enginn veit hvort á að tala hér í hálfan mánuð eða lengur eru bara jólin á næsta leiti og við ætlum að ljúka þessu fyrir þann tíma. Það liggur fyrir. Við verðum bara að hafa þennan háttinn á, það er ekki boðið upp á annað. Það er ekkert hægt að sakast við (Forseti hringir.) almenna þingmenn eða forseta þingsins um það. Það er forusta þingflokkanna sem verður að klára þetta.