145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er mikið eggjahljóð komið í stjórnarliða, hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Ásmund Einar Daðason. Þeir eru eitthvað orðnir þreyttir og þurfa trúlega að komast heim í bakstur eða einhvern jólaundirbúning og (Gripið fram í.)eru bara að gefast upp á umræðu um fjárlög sem eru það stærsta sem við þurfum að fjalla um á hverju ári, fjárlög ríkisins. Þar undir er ekkert smá. Það er ekki hægt að bjóða okkur þingmönnum upp á tal um að það eigi að fara að drífa sig í að semja um að ljúka umræðu, umræðu sem er rétt að byrja í 2. umr. og ekki nærri því allir þingmenn búnir að flytja sína fyrstu ræðu. Ekkert bannar að menn ræði saman, hvort sem eru þingflokksformenn eða formenn flokka, það er ekkert sem heftir það að menn taki umræðuna, ræði málin og skoði hvort hægt sé að mæta hinum góðu breytingartillögum minni hlutans (Forseti hringir.) sem liggja fyrir. Það er hægt að gera hvenær sem er.