145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stuttu máli líst mér vel á slíkar hugmyndir. Ég tel betrun vera eina mikilvægustu leiðina til að spara til lengri tíma. Betrun er orð sem er notað meira en það er praktíserað raunverulega. Nú týni ég íslenskunni minni, virðulegi forseti. En úrræði eins og samfélagsþjónusta og rafrænt eftirlit eru tvímælalaust til bóta. Það er margt gott við frumvarp hæstv. innanríkisráðherra um fullnustu refsinga sem komið hefur fram og við eigum eftir að ræða betur, það eru ágætar breytingar í þeim efnum. Það er að vísu mjög margt í því frumvarpi sem athuga þarf og breyta, að mínu mati. En vissulega er þessi leið ein af þeim sem fara mætti.

Eitt af því sem er afskaplega mikilvægt og mjög vanmetið er hvernig búið er að föngum þegar þeir fara úr fangelsi, vegna þess að það eru afskaplega margir fangar sem hafa áður verið í fangelsi. Við byrjum fyrst að spara ef okkur tekst að rjúfa þann vítahring. Við spörum mest í fangelsiskerfinu með því að þurfa minnst á því að halda.