145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það var margt mjög athyglisvert sem ég get tekið undir, en ég ætla ekki að vera í því í eina mínútu. Ég ætla að láta vita að varðandi umboðsmann Alþingis stendur ekkert annað til en að sú stofnun verði jafnsett. Hvað varðar forgangsröðun til heilbrigðismála finnst mér svolítið vanta hjá hv. þingmanni hvernig við eigum að gera það. Það er enginn vafi að það hefur verið forgangsmál að setja meiri peninga þar inn, en það er ekki nóg, það þarf að fara í ákveðnar kerfisbreytingar. Þetta snýst líka um að taka peninga annars staðar til að setja í heilbrigðismálin. Það er það sem vantar. Til dæmis eru tillögur minni hlutans ófjármagnaðar. Það að setja 4.000 milljónir á skatteftirlit og setja 8.000 milljónir í viðbót á auknar arðgreiðslur til bankanna er ekki fjármögnun.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur, af því að hann veit að það er gert ráð fyrir afturvirkninni fyrir öryrkja og eldri borgara í 9,7%, en hann talar um tekjutengingarnar sem honum finnst ósanngjarnar. (Forseti hringir.) Það er allt satt og rétt en hins vegar gerir maður ekki hvort tveggja, í því felst vandinn. Tekjutengingarnar eru komnar til þess að nýta peningana fyrir þá sem hafa sem allra minnst en ef við tökum tekjutengingarnar munum við ekki hafa fjármagn til þess. (Forseti hringir.) Við verðum að hafa eitthvert jafnvægi í þessu.