145. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur þá tel ég ekki einu sinni að þær tillögur sem við leggjum fram hérna krefjist þess að það séu auknar tekjur á móti, einfaldlega vegna þess að þetta er málaflokkur sem hefur setið á hakanum í einhvern tíma og við þurfum að bæta upp. Það er alla vega mín persónulega afstaða. Síðan er hitt að þessi hæstv. ríkisstjórn hefur farið í skattalækkanir til dæmis sem hafa dregið úr tekjum, alla vega var gert ráð fyrir því á sínum tíma. Það mætti einfaldlega hætta við þær. Það er ein hugmynd. Það eru margar leiðir til þess að auka tekjur ríkissjóðs jafnvel ef hv. þingmanni þykja þessar tilteknu tillögur óraunhæfar. En burt séð frá því tel ég mjög mikilvægt að við stöndum vörð um heilbrigðiskerfið okkar og styrkjum það eftir það sem á undan er gengið.

Að því sögðu er ég afskaplega feginn því, sama hver ágreiningur okkar er um tölur og efnisatriði, að allir hér tala eins og þeir vilji setja heilbrigðiskerfið í forgang. Mér finnst það mjög jákvætt í það minnsta.