145. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Tvö atriði í viðbót, hv. þingmaður. Skildi ég hv. þingmann rétt að hann vildi að þjóðin kæmi að fjárlögum með því að opna þau, vegna þess að nú er verið að færa fjárlög frá þinginu enn meira með nýju lagafrumvarpi um ríkisfjármál sem hv. þingmaður fagnaði, ég skil þetta ekki alveg.

Annað líka. Það varðar tekjuöflun ríkissjóðs. Ég skildi ekki alveg það sem hv. þingmaður talaði um varðandi tekjuskattinn. Mér er ekki alveg ljóst hvort Píratar stefna þá að fjölþrepa tekjuskattskerfi eða flötum tekjuskatti, hversu mörg þrep, ef fjölþrepa tekjuskattskerfið er það sem Píratar vilja. Ég hefði gjarnan viljað að hv. þingmaður varpaði ljósi á það og einnig þá aðkomu, ef ég misskildi hann ekki þeim mun meira, þjóðarinnar að fjárlögum. Hvar endar hún? Er hún um skatthlutfall? Er hún um það ef allir íbúar Akureyrar sameinast um að (Forseti hringir.) það sé brýnast af öllu að Háskólinn á Akureyri fái verulegt fjármagn? Hvernig er (Forseti hringir.) þetta hugsað?