145. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurningarnar og vildi óska þess að ég hefði meiri tíma til að svara.

Hvað varðar aðkomu þjóðarinnar að fjárlögum. Það sem ég átti við er ekki það að þjóðin fari að greiða atkvæði um fjárlög sem slík. Í öllum útfærslum sem ég þekki um þjóðaratkvæðagreiðslu að frumkvæði þjóðarinnar eru fjárlög til dæmis undanskilin. Hins vegar er mjög mikilvægt við vinnslu fjárlaga að þjóðin hafi greiðan aðgang að upplýsingum, skýrar boðleiðir, sem mættu vera skýrari að mínu mati reyndar ef út í það er farið þótt þær séu vissulega til staðar í formi umsagnarferlisins. En því betur sem þjóðin hefur færi á að nýta slík gögn og sjá nýjar hugmyndir eða hvernig hægt sé að leysa ákveðið vandamál, því betra. Sú aðkoma væri aðallega í formi mun upplýstari og gagnlegri umræðu í kjölfar þess að hægt væri að nýta gögn á mun gagnlegri hátt.

Hvað varðar tekjuskattsþrepin, Píratar hafa ekki stefnu í því í sjálfu sér eins og flokkurinn. Ég verð að segja að mér finnst það sem áhersluatriði í einföldun skattkerfisins vera svolítið á röngum stað. Ég skil hvað menn eru að hugsa. Ég hef ekkert á móti því að hafa þrjú skattþrep. Ég sé ekkert að því. Ég sé ekki hversu miklu (Forseti hringir.) flóknara það er en að hafa tvö.