145. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:12]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða í 2. umr. frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016. Fyrst vil ég segja um fjárlögin að þetta eru góð og jákvæð fjárlög, ekki aðeins vegna þess að þau endurspegla góða stöðu og jákvæða í orðsins fyllstu merkingu, þar sem lagt er upp með afgang af ríkissjóði þriðja árið í röð, heldur enn fremur vegna þess að áherslur þessarar ríkisstjórnar koma vel fram, bæði á gjalda- og tekjuhlið, eins og þetta stærsta stefnumál hverrar ríkisstjórnar ber að gera hverju sinni. Tekjur ríkissjóðs eru að aukast þrátt fyrir að áherslan hafi verið á lækkun skatta til aukinnar ráðstöfunar og kjarabóta og þá kaupmáttar fyrir einstaklinga, almenning eða heimilin í landinu. Tekjuaukinn er skýr vísbending um að betur gengur í atvinnulífinu og bættum kjörum á sama tíma og reynt er eftir fremsta megni að sýna aðhald á gjaldahlið með skýrri forgangsröðun til grunnþjónustunnar. Auðvitað má merkja áhrif kjarasamninga á útgjaldahlið fjárlaga. Tekjuaukinn hefur þannig, má segja, farið í að bæta kjör og reisa við og bæta grunnþjónustu. Þar liggur forgangurinn en að sjálfsögðu er afgangurinn mikilvægur þannig að hægt verði í auknum mæli að ganga á ríkisskuldir og lækka vaxtabyrðina sem enn er allt of stór útgjaldaliður og hamlar uppbyggingu.

Virðulegi forseti. Með því að skila ríkissjóði með auknum afgangi þriðja árið í röð eykst svigrúmið til að ráðast af alvöru í niðurgreiðslu skulda og þá um leið þann útgjaldalið sem eru vaxtagjöldin, sem er enn um sinn þriðji stærsti útgjaldaliðurinn á eftir framlögum til heilbrigðis- og velferðarmála. Við ættum í því ljósi öll að geta verið sammála um að ráðast verði af fullum þunga í að greiða niður skuldir á komandi missirum, lækka vaxtaútgjöldin til þess að við getum og verðum enn betur í færum til að bæta grunnþjónustu, brýnustu þarfir í velferðarmálum. Ég nefni málefni eldri borgara og öryrkja en mikið hefur verið rætt um það, eðli máls samkvæmt. Nú síðast í dag var fundur fjárlaganefndar með Félagi eldri borgara og fulltrúum öryrkja. Svo er það í heilbrigðismálum, menntamálum, samgöngumálum, löggæslunni og þeim skilgreindu grunnþjónustumálefnum sem við viljum standa mynduglega að. Þessi ríkisstjórn hefur, alveg sama hvað hver segir, útfært skýra stefnu og hún endurspeglast vel í fjárlagagerðinni, bæði á tekju- og útgjaldahlið. Í því sama samhengi kemur vel fram í nefndaráliti meiri hlutans sú fjárfestingarþörf sem hefur safnast upp í helstu innviðum, eins og samgöngumannvirkjum, og sú framtíð sem blasir við í þróun breyttrar aldurssamsetningar og öllu heldur í þeim áherslum sem við sjáum í breytingartillögum þess efnis. Þetta mun óhjákvæmilega kalla á aukin útgjöld á komandi missirum á því sviði.

Hagvöxtur til framtíðar litið og lífskjör munu óneitanlega þegar litið er til mikilvægis ferðaþjónustunnar og uppbyggingar hennar sem atvinnugreinar treysta verulega á fjárfestingu í innviðum og samgöngum. Menntun er þáttur sem við verðum að hlúa vel að og framlög til menntamála snúast alltaf um framtíðarlífskjör og þar munum við ávallt þurfa að horfa til samanburðar landa okkar, vegna þess að samkeppnin um ferðamenn, um vinnuafl framtíðarinnar liggur þar. Upphaflegur áætlaður rekstrarafgangur var 15,3 milljarðar en með breytingartillögum, sem m.a. má finna í nefndaráliti meiri hlutans og á sérþingskjölum, mun hann dragast saman um liðlega 1/3 þar sem breytingartillögurnar kalla á 4,6 milljarða aukin nettóútgjöld. Tekjur aukast um rúmlega 4.236 millj. kr. til merkis um betri tíð, en útgjöldin samkvæmt breytingartillögum aukast um 8.803 millj. kr. Þannig verður afgangurinn samkvæmt þessu, gangi frumvarpið eftir með fyrirliggjandi breytingartillögum, 10,7 milljarðar. Það er eftir sem áður myndarlegur afgangur en vissulega mun minni afgangur, sem út af fyrir sig er áhyggjuefni miðað við þær efnahagsaðstæður sem við búum við núna, þá uppsveiflu sem við erum í í efnahagslífinu og vilja margir meina að við séum á toppi þeirrar uppsveiflu og komin inn í góðæri. Það verður þó að líta til þeirra aðstæðna sem við komum frá. Þar var grunnþjónustan farin að finna verulega fyrir samfelldum niðurskurði í nokkurn tíma á meðan við vorum að vinna okkur í gegnum og út úr kreppu og því aðkallandi að vinna sig til baka þegar betur árar. Það kann sumum að finnast gerast hægar en gott þykir en á sama tíma er mikilvægt að sýna aðhald og því er þetta eilítið snúin staða. Staðan er snúin, segi ég, vegna þess að um leið og við þurfum að mæta útgjaldakröfum á hagstjórnarforsendum þar sem mikilvægt er að sýna aðhald þá vilja flestir sjá hlutina gerast hraðar, sjá viðsnúninginn skarpari, um leið og sannarlega er vilji til að leiðrétta kjör launþega og bæta í þegar kemur að grunnþjónustu, sem er eins og ég kom að áðan víða aðkallandi og við finnum vel fyrir því. Þetta er verkefnið, hafi ég ekki sagt það nægilega skýrt, að hæstv. ríkisstjórn taki skynsamlega á þeim málum, feti þá stigu eins skynsamlega og mildilega gagnvart hagstjórn, stöðugleika og kaupmætti og hægt er á sama tíma og launakjör eru leiðrétt og bætt er í grunnþjónustu.

Stór hluti útgjaldaaukningarinnar er vegna áhrifa kjarasamninga eða um 5 milljarðar, á móti vega þar breyttar verðlagsforsendur þar sem gengis- og verðlagsbætur lækka um 2,3 milljarða og nettóáhrifin því liðlega 3 milljarðar. Segja má að aðrar breytingar komi í framhaldi af aðkallandi fjármagni til verkefna sem óhjákvæmilegt er að fara í og er það vel að farið sé í þau verkefni á markvissan hátt og fjármagni beint þangað.

Ég held mig við nefndarálit meiri hluta og þau verkefni sem birtast þar í breytingartillögum og nefni heilbrigðiskerfið, menntamálin, velferðarkerfið, húsnæðiskerfið og innviðina. Einnig eru ýmis önnur verkefni sem þarf að takast á við og nefni ég þar flóttamenn og hælisleitendur, atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og ýmis heilbrigðar- og velferðartengd málefni. Eins og ég sagði er þetta rakið ágætlega í nefndaráliti meiri hlutans og tilgreint í breytingartillögum sem þar er að finna.

Ég ætla að ræða meginbreytingarnar eins og þær birtast þar. Fyrst ætla ég að telja að 1 milljarður fer til aðstoðar við hælisleitendur og flóttafólk. Ég vil segja að hæstv. ríkisstjórn hefur tekið myndarlega á þeim vanda sem steðjar að og það er ekki mælt í fjármunum eða fjölda heldur fremur í viðleitni til þess að taka á því af ábyrgð og vanda til verka þannig að við getum tekið myndarlega á móti fólki og hjálpað því að samlagast þjóðfélagi okkar og því samfélagi sem tekur á móti í hverju tilviki. Þannig fara aukalega 531 millj. kr. til þróunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi og þróunarsamvinnu, þar af 18 millj. kr. til Sameinuðu þjóðanna og til Háskóla Sameinuðu þjóðanna 13 millj. kr. og 500 millj. kr. í mannúðarmál og neyðaraðstoð. Einnig er framlag sem fer til stuðnings við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök sem vinna með flóttafólki erlendis, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínuflóttamenn og svo fara 95 millj. kr. aukalega til Útlendingastofnunar til að mæta auknum fjölda hælisleitenda og uppfylla kröfur um málshraða, en með því viðbótarframlagi verður heildarframlag til Útlendingastofnunar 349 millj. kr. á næsta ári. 50 millj. kr. eru vegna aukins kostnaðar samkvæmt 15. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og 375 millj. kr. fara til innflytjendaráðs og móttöku flóttamanna og hjálparstarfsemi, þannig að um 1 milljarður fer á ýmsa liði til að við getum sem faglegast og best tekið á móti og veitt sem besta aðstoð fyrir þá fjármuni sem við setjum í þetta verkefni, sem við eigum að sameinast um að gera sem best.

Í annan stað fara 840 millj. kr. samkvæmt þeim breytingartillögum sem ég er að fara yfir sérstaklega til að vinna niður biðlista eftir völdum skurðaðgerðum. Biðlistinn er gríðarlegur og gert er ráð fyrir að gerðar verði alls 4.963 aðgerðir á þriggja ára tímabili, til vitnis um þennan lista. Þar er um að ræða augnsteinaaðgerðir, kransæðaþræðingar og gerviliðaaðgerðir á hné og mjöðm, en nánar er um það fjallað á blaðsíðu 42 í því nefndaráliti sem ég vitna til. Til að halda utan um þetta átak, sem er svo brýnt, eru áætlaðar 15 millj. kr., til þess að halda utan um verkefnið, umsýslu og framkvæmd þess svo að umgjörðin verði sem best. Gert er ráð fyrir að biðin verði ekki lengri en þrír mánuðir frá því að beiðni er lögð fram. Ég vil nefna þetta vegna þess að ég tel það afar gott dæmi um framlag sem fer í afmarkað aðkallandi verkefni og byggt er á greiningu og mati og samvinnu við hlutaðeigandi aðila í heilbrigðiskerfinu.

Í þriðja lagi vil ég nefna að í breytingartillögum er lagt til 490 millj. kr. framlag í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Það fer til uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum en auk þess fara 65 millj. kr. til Stjórnstöðvar ferðamála og 150 millj. kr. til rannsókna á sviði ferðamála. Ég tel það afar skynsamlegt í ljósi þess mikla vaxtar sem atvinnugreinin er í en ekki síður þar sem atvinnugreinin er sérstök að því leyti að hún gengur þvert á margar aðrar atvinnugreinar og teygir anga sína víða og er samofin mörgu í samfélagi okkar, ég nefni uppbyggingu innviða sem við nýtum dags daglega og uppbyggingu annarrar starfsemi, auk þess að geta haft mikil áhrif á hvernig menning þróast og fleira í daglegu lífi okkar og samfélagi. Ferðaþjónustan er því margslunginn atvinnuvegur sem kallar síðan á aðra þjónustu sem beinist beint að ferðamanninum en kallar á fjárfestingar og er það í fræðilegu tali nefnt ytri gerð. Það eru ýmsar fjárfestingar sem þarf að ráðast í en þær hafa það einkenni á sér að vera oft og tíðum með fastan kostnað fólgin í sér, eins og hótelfjárfesting og ýmiss konar fjárfesting í afþreyingu. Þá er atvinnugreinin að öllu jöfnu sveiflukennd og sveiflast þá gjarnan eftir árstíðum. Hér er háönn til að mynda yfir fáa mánuði og hásumartímann sem hefur kallað á það viðvarandi verkefni, eins og þetta er oft nefnt, að teygja ferðamannatímann í báða enda eða það sem við getum kallað að lengja ferðamannatímabilið. Vissulega höfum við náð árangri á því sviði í seinni tíð ef marka má tölfræði um komu ferðamanna. Þar hafa norðurljósin og vetrartilboð og framboð í flugi haft sitt að segja. Við hljótum því að fagna framtíðarsýn og stefnumörkun í ferðaþjónustu. Slík stefnumótun þarf á talnagögnum og greiningu að halda og atvinnugreinina þarf að byggja upp á slíkum gögnum og ákvarðanir sem lúta að atvinnugreininni þegar kemur að uppbyggingu, þannig að við getum stýrt því af skynsemi hvernig við nýtum náttúruna og innviðina og fjárfestum skynsamlega til þess að við getum byggt áfram upp þessa mjög svo vaxandi atvinnugrein á sem arðbærastan hátt.

Þegar kemur að afþreyingu í ferðaþjónustu ætla ég að minna á frumvarp sem ég hef lagt fram í þrígang en ekki fengið að mæla fyrir, virðulegi forseti, enn sem komið er. Þar er um að ræða heimild til handa hæstv. innanríkisráðherra um að leyfa rekstur spilahallar sem er vinsæl afþreying erlendra ferðamanna víðast um heim, aðallega velborgandi ráðstefnugesta, og fer vel saman með þeim markmiðum að jafna ferðamannatímabilið og nýta þannig aðra fjárfestingu sem beinist að grunnþjónustuþáttum ferðamanna, ráðstefnuhaldi, flugferðum og gistingu. Neikvæð afstaða til slíkrar afþreyingar er að mínu viti á misskilningi byggð þegar um er að ræða þann vanda sem til að mynda spilafíkn er, sem við höfum vissulega skilning á að þurfi að vinna á en ég tel að við séum á villigötum þegar kemur að þeim þætti vegna þess að þar er aukin spilamennska á netinu stóra vandamálið. Við þurfum jafnframt að taka á í þeim efnum. Hér er einnig í gangi ólögleg svört atvinnustarfsemi eins og nýlegum dómur ber vitni um þar sem slík ólögleg starfsemi samkvæmt hegningarlögum var í gangi og einstaklingar voru sannarlega að spila en réttarverndin var engin, og svo gæti ég talið ég upp að auðvitað voru engar tekjur í ríkissjóð. Það væri til mikilla bóta og vel í takt við markmið og stefnu í ferðaþjónustu að heimila slíkan rekstur. Það eru ekki einvörðungu árstíðarsveiflurnar sem einkenna ferðaþjónustuna og það að ýmsum fjárfestingum á vissum sviðum fylgi hár fastur kostnaður, einkenni atvinnugreinarinnar er einnig að ferðaþjónustuaðilar eru um margt háðir hver öðrum ef árangur á að nást í markaðssetningu og stjórnun þeirra mannvirkja, þjónustuþátta og rekstrar sem þarf að vera til staðar, bæði þegar kemur að innri og ytri gerð ferðaþjónustunnar. Því hlýtur stefnumörkun á því sviði ekki síst að miða að því að ná fram samvinnu og samstöðu á því sviði þannig að kraftar einstakra aðila og fjármunir séu nýttir sameiginlega, þar sem Ísland sem áfangastaður er í brennidepli, og samvinna um það hvernig fjárfestingar nýtast sem best og skilvirkast. Aukinheldur getur og ætti skýr stefnumörkun að draga fram þau viðfangsefni í innviðauppbyggingunni sem getur samnýst þeim þáttum sem við nýtum sem borgarar jafnt sem ferðamenn. Almenningssamgöngur er hægt að nefna í því tilliti og samgöngukerfi, útivistarsvæði og afþreyingu ýmiss konar sem eru gott dæmi um slíkt. Við getum því unnið markvisst að því að ferðaþjónustan hafi jákvæð áhrif á uppbyggingu samfélags okkar á ýmsum sviðum og þá er ég að vísa til þeirrar fræðilegu skiptingu sem ég nefndi, innri og ytri gerð. Auðvitað horfum við síðan til atvinnugreinarinnar og efnahagslegra áhrifa hennar í framlagi til landsframleiðslunnar, atvinnusköpunar, gjaldeyrisöflunar og veltu. En við eigum að horfa til fleiri þátta og þess vegna fagna ég því að hér sé verið að setja fé til stefnumótunar, rannsókna og þróunar. Það birtast mikilvægir þættir og viðleitni í þessum fjárlögum og áherslum á þann þátt til framtíðaruppbyggingar ferðaþjónustu.

Í fjórða lagi ætla ég að víkja að breytingartillögu meiri hlutans þar sem verið er að setja 400 millj. kr. aukalega til eflingar almennri löggæslu. Hér var sérstök umræða ekki fyrir alls fyrir löngu um málefni lögreglunnar og í umræðu um fjárlögin hefur þetta komið upp í nokkrum ræðum hv. þingmanna. Það er ekki annað að marka af þeirri umræðu en að full sátt sé um þetta framlag og skilningur á því mikilvæga hlutverki sem lögreglan hefur við að tryggja öryggi borgaranna og því aukna álagi samhliða sem felst í auknum fjölda ferðamanna. Sú þróun sem hefur átt sér stað undanfarin missiri með auknum og breyttum áskorunum kemur vel fram í nýlegri skýrslu ríkislögreglustjóra og það hefur komið fram í bæði þeirri skýrslu og umræðunum hversu aðkallandi það er að brugðist sé við þeirri þróun. Lögreglan þarf aukinn mannskap og hún þarf aukið fé til að styrkja almenna löggæslu og til þess, sem er svo mikilvægt í grunninn, að halda uppi ásættanlegri frumkvæðislöggæslu og styrkja sérhæfðar deildir lögreglunnar á öllum sviðum. Á blaðsíðu 30 í nefndaráliti meiri hluta segir orðrétt varðandi þetta framlag, með leyfi forseta:

„Lagt er til 400 millj. kr. framlag til að styrkja lögregluna í landinu. Árið 2014 var stigið jákvætt skref í þá átt með ákvörðun á Alþingi um 500 millj. kr. framlag. Við greiningu á lögregluembættum landsins hafa komið fram veikleikar í starfseminni sem brýnt er að mæta. Einn þeirra þátta er það mikilvæga hlutverk sem lögreglan hefur við að tryggja öryggi þess aukna fjölda ferðamanna sem um landið fer. Annar þáttur snýr að auknu gegnsæi í starfsemi lögreglunnar og miðar að því að tryggja viðunandi þjónustu- og öryggisstig. Lagt er til að skipting fjárveitingarinnar milli lögregluembætta verði skilyrt þannig að úthlutunin grundvallist á því að úttekt á þjónustu- og öryggisstigi hafi farið fram í viðkomandi lögreglumdæmi. Þeir lykilþættir sem þjónustustig lögreglunnar grundvallast á eru útkallsþjónusta, afbrotavarnir og rannsóknir mála. Þeir lykilþættir sem öryggisstigið grundvallast á taka til þess öryggis sem almenningur getur vænst að njóta auk þess sem líta verður til þess öryggis sem lögreglumenn geta gert kröfu um við framkvæmd hættulegra löggæsluverkefna.“

Hér er verið að bregðast við þessum þáttum og það er vel. Það ríkir sátt um að það verði gert og þá er auðvitað jákvætt að samningar náðust um kjarabætur til handa lögreglumönnum, sem eins og margir aðrir hópar höfðu setið eftir og dregist aftur úr í kjörum.

Ég ætla að nefna athyglisverð framlög til samgöngumála þar sem eru 235 millj. kr. til tengivega um landið. Þetta verða mér einhverjir dómbærari að vega og meta en ég geri langt í frá lítið úr því. Við vitum öll hversu brýnt og aðkallandi það er að byggja upp og hlúa að samgöngum, ekki aðeins til uppbyggingar fyrir ferðaþjónustu, eins og ég fór yfir áðan, úti um allt land heldur til að liðka til fyrir fólks- eða vöruflutningum. Einnig er aðkallandi í því tilliti að bregðast við aukinni umferð og samgöngubótum á helstu umferðaræðum. Það á ekki einungis við á landsbyggðinni heldur jafnframt á höfuðborgarsvæðinu og ég vil nefna í kjördæmi mínum, Suðvesturkjördæmi, Arnarnesveg í Kópavogi sem nú hefur loks verið byrjað á, Kjósaskarðsveg sem loks fékk einhverjar endurbætur eftir langa slitgöngu og lagt er til að haldið verði áfram við þá endurgerð samkvæmt áætlun. Svo vil ég nefna Reykjanesveg sunnan Hafnarfjarðar, sem er á áætlun 2018, þar sem stefnt er að því í fyrsta áfanga að gerð verði vegamót við Krísuvíkurveg. Umferð þar er hreinlega hættuleg á helsta umferðartíma og út frá öryggissjónarmiðum þarf að fara í þá framkvæmd, og þótt fyrr verði.

Samgöngur snúast um margt fleira en vegi og ég fagna því sérstaklega að viðbótarframlög sé að finna í breytingartillögum meiri hlutans til hafnarframkvæmda og endurbóta á höfnum. Lagt er til að 400 millj. kr. fari til þessara verkefna til endurnýjunar á bryggjum og dýpkunar í löndunarhöfnum. Á blaðsíðu 35 í nefndaráliti meiri hlutans er gerð nánari grein fyrir framlagi til endurbóta hafna og þar segir meðal annars að samkvæmt mati Vegagerðarinnar séu bryggjur í fullri notkun sem séu beinlínis orðnar hættulegar og geti við rask eins og jarðskjálfta gefið sig. Þá er þar til fyrirmyndar að framlagið er sundurliðað eftir höfnum. Ég vil fagna því að verið sé að bregðast við þessu þar sem þetta er hluti af samgöngum okkar og stuðningi við atvinnuvegi og sjávarútveginn í því tilliti.

Að lokum ætla ég að ræða forgangsröðun og skattstefnu hæstv. ríkisstjórnar. Hér hefur nokkuð verið talað um í umræðunni svigrúm til skattalækkana og horft til tryggingagjaldsins í þeim efnum til að mynda. Svigrúmið til lækkana hlýtur í senn að ráðast af forgangsröðuninni sem birtist í skattstefnunni og fjárlögum hverju sinni, út frá þeirri stöðu sem er uppi, hvaðan í hagsveiflunni við erum að koma og hvert við erum að fara. Það er fræðilega skilgreiningarefni hvar við erum stödd í hagsveiflu og hún getur í skilgreiningu verið mislöng. Við höfum hins vegar sannarlega verið í hægri uppsveiflu, komandi úr djúpri kreppu þar sem aðhalds og niðurskurðar var þörf, réttara væri að orða það sem svo að það hefði verið nauðsynlegt og óhjákvæmilegt. Það myndaðist samstaða um slíkar aðgerðir en með tilheyrandi fórnum í grunnþjónustu, innviðum og fjárfestingum. Við erum væntanlega stödd á toppi uppsveiflu á leið inn í góðæri, sem yrði þá skilgreint góðæri sem getur enst ef rétt er á málum haldið, góðæri þar sem við getum vonandi, eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar, farið í auknum mæli og af meiri þunga í að greiða niður skuldir og ná niður vaxtagjöldum, þar sem hægt verður að ná fram kjarabótum til flestra og halda áfram á þeirri vegferð, skjóta stoðum undir atvinnulífið með auknum fjárfestingum og reisa við grunnþjónustuna. Það á að vera hægt og það er ekki síst fyrir þá stefnu sem þessi ríkisstjórn hefur valið og að því leytinu til tel ég hæstv. ríkisstjórn á réttri leið.

Það er alveg rétt að það er ekki svigrúm til að gera allt í einu og ég get nefnt vegakerfið. Ég held að flestir sem hafa tekið til máls í umræðunni séu sammála um að þrátt fyrir að á hverju ári sé verulegu fé varið til framkvæmda þá verði að forgangsraða og horfa til þeirra eininga sem mynda hagkerfið, atvinnulífið og heimilin, sem eru þær grunneiningar sem mynda þá efnahagshringrás sem við stýrum.

Lækkun tryggingagjalds er varla hafin og margir vildu sjá það gerast í miklu stærri skrefum og í takt við minna atvinnuleysi. Að sinni hefur verið boðað að það muni ekki gerast hraðar og ekki á næsta ári þar sem ákveðið var að koma til móts við atvinnulífið og fyrirtækin í erfiðum kjarasamningum.

Ég ætla að víkja að sjávarútveginum. Ég ræddi þó nokkuð um ferðaþjónustuna en þessar tvær atvinnugreinar ásamt álframleiðslu eru okkar helstu gjaldeyrisskapandi greinar og eiga það sameiginlegt að nýta náttúruauðlindir okkar. Það er í sjálfu sér heillaþróun að sjá að fjölþættari nýting er að verða með vexti í ferðaþjónustu. Það er stefna hæstv. ríkisstjórnar að byggja upp af skynsemi rekstrar- og skattumhverfi sem gefur þessum atvinnugreinum færi á að vaxa og dafna og skila arði af auðlindum og skapa atvinnu. Varðandi það sem sjávarútvegurinn hefur skilað er skattsporið samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmönnum sjávarútvegsins um 25 milljarðar. Margir vilja meina að sjávarútvegurinn geti skilað hærri auðlindagjöldum. Til að sýna sanngirni í þá veru og ef maður skoðar grannt tíu stærstu sjávarútvegsfyrirtækin þá mætti vafalítið með einhvers konar tilfæringum kreista fram hærri og meiri veiðigjöld frá þeim stöndugustu með mesta kvótann og fyrirtækin. En við verðum að huga að framtíðinni. Við verðum að skapa stöðugleika, við verðum að skapa atvinnugreininni svigrúm til að fjárfesta. Það er staðreynd að atvinnugreinin hefur þegar litið er á hagnaðartölur, arðsemistölur, uppbyggingu og framleiðni, sem víða er skortur á í atvinnulífinu, náð miklum árangri á undanförnum árum. Sem betur fer hefur náðst að greiða niður miklar skuldir sem hvíldu á atvinnugreininni. Þá verður jafnframt að líta til jafnræðis og meðalhófs þegar við horfum á hundruð annarra fyrirtækja vítt og breitt um landið. Það er vafalítið hægt að fínstilla og kreista eitthvað meira út en það er ekki sjálfgefið. Við eigum hins vegar að reyna að finna þann stað að ná sátt um þennan grundvallaratvinnuveg þjóðar okkar, grundvallarútflutningsatvinnuveg ásamt ferðaþjónustu og álframleiðslu.

Ég ætla að víkja að heilbrigðismálunum en þau hafa eðlilega verið töluvert í umræðunni. Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að þróun fjárframlaga í þeim málaflokki í tíð þessarar ríkisstjórnar sé á einn veg, þau hafa stórhækkað í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það er sett fram í töflu í nefndaráliti, í ágætisnefndaráliti meiri hlutans, þar sem kemur jafnframt fram að hækkunin sé mun meiri en í öðrum málaflokkum, enda er það skýr forgangsröðun að endurreisa heilbrigðiskerfið þótt ég vilji meina að við förum oft og tíðum fram úr okkur þegar við tölum um heilbrigðiskerfið og hvar það sé statt. Við eigum afbragðsfagfólk sem hefur unnið undir gríðarlegu álagi og samkvæmt flestöllum tölum sem koma fram í umræðunni hefur Landspítalinn til að mynda staðið sig afar vel og heilbrigðiskerfið allt við erfiðar aðstæður undanfarin ár.

Í þeim breytingartillögum sem ég er að fara yfir er enn verið að bæta í, það er verið að bæta við 840 millj. kr. til að vinna niður biðlista. 280 millj. kr. framlag fer til að mæta kostnaði við rannsóknir á lifrarbólgu C og er að finna upplýsingar um það á blaðsíðu 43. Það er að sjálfsögðu einnig fjármagnað með fjárframlögum annars staðar frá, sem ber að þakka, og svo eru 50 millj. kr. aukalega til reksturs sjúkrahúsa.

Virðulegi forseti. Það fer aðeins að ganga á tímann og það er mjög margt sem kemur fram í breytingartillögunum við frumvarpið í 2. umr. sem vert er að skoða. Ég hef ekki farið sérstaklega yfir málefni eldri borgara og öryrkja en ég ætla heldur ekki að standa hér og fullyrða að laun þessara hópa megi ekki eða eigi ekki að vera hærri. Við erum ekki að tala um háar rauntölur og það er skiljanlegt að hóparnir berjist fyrir bættum kjörum. Við eigum, svo ég segi það hreint út, að vinna að því og það er fullur skilningur á því hjá hæstv. ríkisstjórna og meiri hlutanum. Ég veit að við stjórnarliðar höfum rætt og sett fram tölur og hlutfallslegar hækkanir og aðgerðir frá sumri 2013. Það er erfitt að bera saman prósentuhækkanir og rauntölur, það verður alltaf vondur samanburður. Það verður þó að virða þá viðleitni að farið sé yfir það sem þó hefur verið gert frá sumri 2013, eins og að hækka frítekjumark og lækka skerðingarhlutföll ásamt lögbundnum hækkunum, sem er ekkert sérstaklega vert að þakka fyrir af því að það er lögbundið en það er vel og var í raun mjög góður áfangi á þeim tíma, 2011 held ég að það hafi verið sett í lög, þar sem tryggt er að meðaltalslaunahækkanir eða verðlagsuppbót, það sem hærra er, komi hér við hver áramót. Það er hins vegar nauðsynlegt í stöðunni eins og hún er í dag og við þær skýru kröfur sem komu fram meðal annars á fundi með hv. fjárlaganefnd í dag, annars vegar um það að laun muni í það minnsta ná lægstu launum þegar þau verða 300 þús. kr. 2018/2019 og svo var krafa sem kom skýrt fram á fundinum um afturvirkni. En þetta verður að skoða í umræðunni og við verðum að tala um þetta eins og það er en jafnframt að draga fram allar upplýsingar til að við áttum okkur á því hvar við erum stödd í þeirri viðleitni að bæta kjörin, hvað sé búið að gera og hvað sé verið að gera og hvað þetta þýði á komandi missirum. Hér hafa ýmsar tölur verið í umræðunni og þær eru misjafnar nánast eftir einstaklingum og fjölskyldumunstri þeirra sem tilheyra þessum hópum. Ef við tökum laun sem geta náð launabótum, 246 þús. kr., og þær taka hækkun samkvæmt spám fyrir 2017, þeirri hækkun sem nú er, þá þarf ekki miklar hækkanir umfram það til þess að sú tala verði 300 þús. kr. Við erum að tala um 7,5–8% Þetta verðum við að skoða og ég legg áherslu á það. Lengra get ég ekki farið í þessari ræðu en þetta verður að skoðast í samhengi og ég biðla til hæstv. ríkisstjórnar að fara vel yfir alla möguleika í stöðunni.

Ég á eina mínútu eftir af ræðutíma mínum og það er margt sem ég hefði viljað ræða. Ég nefni sérstaklega styrkveitingar til uppbyggingar verkefna á landsbyggðinni, atvinnuuppbyggingar og félagasamtaka. Í því samhengi verður hinn svokallaði þriðji geiri okkur afar mikilvægur á komandi árum og vegna breyttrar aldurssamsetningar og þegar við horfum á það forvarnastarf og sjálboðaliðastarf sem þar er unnið, ég ætla ekki að nefna nein sérstök samtök í því, við eigum svo mörg frábær samtök á því sviði, þá sparar það ríkissjóði mikla fjármuni á komandi árum. Það er hins vegar mjög mikilvægt að yfirsýn sé yfir þá starfsemi og að það sé gagnsæi þegar kemur að því að veita fjármuni úr ríkissjóði. Ég hefði viljað ræða Íbúðalánasjóð, Ríkisútvarpið, fjarskiptamálin, nýsköpun og atvinnuþróun, sem hæstv. ríkisstjórn er sannarlega að bæta í og er það vel.