145. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að inna hv. þingmann eftir einu. Komið hefur neyðarkall frá Landspítala – háskólasjúkrahúsinu okkar, þjóðarsjúkrahúsinu okkar, að það vanti inn í reksturinn og viðhald um 3 milljarða. Þær óskir eru rökstuddar frá öllum hliðum og hv. þingmaður kom aðeins inn á þriðja geirann, hann á þá eflaust við að Landspítalinn hafi fengið ýmsar góðar gjafir, en við getum varla treyst á það að hann sé fjármagnaður með frjálsum framlögum, hversu góð sem þau eru. Telur ekki hv. þingmaður að það verði að mæta þessum þunga sem kemur frá háskólasjúkrahúsinu, aðalsjúkrahúsi allra landsmanna, sem allir treysta á að sé til staðar? Og ekki sé boðlegt að fólk þurfi að liggja inni í tækjageymslum og úti um alla ganga og þar sé allt míglekt eins og sást á Grensási og á fleiri stöðum, það verði hreinlega að nýta þann tekjuafgang sem er til að mæta þeim óskum?

Í lokin varðandi aldraða og öryrkja fannst mér hv. þingmaður hafa skilning á því að það yrði að gera betur. Er hv. þingmaður tilbúinn til að endurskoða hug sinn? Nú ætla aldraðir og öryrkjar að koma hingað og vera með samstöðufund í fyrramálið úti á Austurvelli. Þeir hafa á fundi fjárlaganefndar rökstutt mjög vel sitt mál og hrakið þær fullyrðingar að búið sé að bæta þeim í kjörum sambærilega við aðra launþega í þjóðfélaginu. Þeirra réttláta krafa er að fá afturvirkt líka eins og aðrir launþegar hafa fengið á þessu ári frá 1. maí. Er (Forseti hringir.) hv. þingmaður tilbúinn að endurskoða sinn hug varðandi greiðslur og að bæta kjör aldraðra og öryrkja?