145. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er kannski alltaf óskemmtilegt að vera að ræða þessi mál hér þegar komið er svona langt fram á nótt, en það þýðir víst lítið að deila um það. Mig langar aðeins að velta upp nefndaráliti meiri hlutans sem ég ræddi mjög lítið í fyrri ræðu minni. Í ljósi nýjustu upplýsinga, þar sem fram hefur komið að það gleymdist að áætla fyrir tæpum 1.200 millj. kr. í launamál vegna kennarasamtakanna, horfir maður á þetta aðeins öðrum augum, enda er þá afgangurinn að verða enn minni en rætt var um síðast; hann var 10,7 milljarðar í gær og er kominn niður í 9,5 milljarða í dag og kannski neðar ef eitthvað fleira er undirliggjandi. Það er áhyggjuefni, í ljósi þeirrar forsíðu sem er á nefndarálitinu, þar sem fram kemur að nokkuð sé í land með að hefja niðurgreiðslu skulda. Það þýðir að vaxtakostnaðurinn er áfram hár eins og verið hefur og auðvitað er ástæða til að velta því upp að við skulum vera í þeirri stöðu að þremur árum liðnum og alltaf er samt ákveðinn hagvöxtur, að þetta sé enn ekki farið að síga neitt niður á við sem heitið geti og að undirliggjandi skuli vera dapur rekstur ríkissjóðs.

Á forsíðu meiri hlutans er líka talað um uppsafnaða fjárfestingarþörf í innviðum sem ég vék að í nefndaráliti mínu. Ég ætlaði að leiðrétta eitt atriði. Það var talað um að atvinnuvegafjárfesting mundi lækka sem hlutfall af vergri landsframleiðslu en það misritaðist; myndin sýnir prósentuhlutfall á milli ára.

Aðeins meira úr þessu áliti meiri hlutans. Ég gagnrýni líka, og við höfum gert það í fjárlaganefnd, þetta með arðgreiðslurnar. Mér finnst það ekki nægjanleg skýring þegar verið er að halda því fram að það sé algerlega á vegum Bankasýslunnar að ákveða það. Það er auðvitað eigandinn sem leggur eitthvað til og síðan er það kannski skynsamleg áætlunargerð að áætla þetta í samræmi við það sem verið hefur undanfarið miðað við afkomu bankans þó að ekki sé farið í hæstu hæðir með það.

Mig langar að ræða nokkur mál, taka út fyrir sviga, sem ég gerði minna af í fyrri ræðu minni. Mig langar að byrja á löggæslunni, fangelsismálum, ræða það aðeins. Ég hef miklar áhyggjur af þeim málum. Þó að hér sé verið að veita 400 millj. kr. í það þá hef ég áhyggjur af því að þeir fjármunir fari fyrst og fremst til endurgreiðslu hallareksturs embættanna. Mér þykir það ekki ásættanlegt. Það á við um það eins og annað sem við höfum verið að ræða hér að það er mjög dapurt þegar ríkisstjórnarfulltrúar bera saman aðstæður eins og þær voru þegar síðasta ríkisstjórn tók við og fram eftir þegar ríkissjóður var á hausnum, með 120 milljarða halla, og síðan hefur staðan hægt og sígandi verið upp á við; að þá skuli fólk leyfa sér að koma hér fram og láta eins og það hafi verið óskastaða að taka við slíku búi og óskastaða að þurfa að bregðast við á þann veg þurfti, þ.e. með því að skera niður nánast alls staðar. Það er ekki eitthvað sem nokkur maður vill gera í þeim mæli sem við neyddumst til að gera á síðasta kjörtímabili.

Varðandi löggæsluna þá hef ég áhyggjur af umferðaröryggi. Það er orðið lítið um að maður sjái bíla á ferð þegar maður er að keyra um landið, þ.e. löggæslubíla og eftirlit. Ekki er mikið um frumkvæðisrannsóknir lögreglu. Það er ekki fíkniefnahundur á Austurlandi þó að þar sé landamæragæsla og það er mjög mikill kostnaður. Það ætti að vera eitt af því sem fulltrúar í fjárlaganefnd horfa til, að það er sparnaður, það er líklegra til árangurs, að þetta sé á staðnum. Ég skil ekki af hverju sú leið hefur ekki verið farin að sjá til þess að embættið hafi þá fjármuni sem til þarf.

Varðandi fangelsismálin þá sit ég líka í allsherjar- og menntamálanefnd. Þar erum við að ræða um frumvarp um fullnustu refsinga. Það gengur meðal annars út á aðstöðuna og fangelsismálin í heild. Páll Winkel fangelsismálastjóri kemur og segir að það vanti miklu meiri fjármuni, að hann sé að missa fagfólk sem hann getur ekki verið án; það sé mannauður sem hann tíni ekki upp af götunni því að það þurfi sérstaka karaktera til að vera í slíku starfi sem séu til þess bærir að halda uppi lögum og reglu ekki síður en að sýna manngæsku og hafa brjóstvit.

Það er ekki verið að setja fram óréttmætar tillögur þegar talað er um að það vanti 80 millj. kr. hækkun á næsta ári til að hægt sé að reka fangelsi hættulaust. Þetta snýr bæði að öryggi fangavarða og líka að öryggi fanganna sjálfra. Þetta kemur meðal annars fram í því að mikið er um að menn sé einir á vakt. Þetta kemur ekki bara fram hjá Páli Winkel heldur líka hjá fyrrverandi formanni Félags fangavarða. Það er ítarlegt viðtal við hann þar sem kemur fram að mikið sé um lágmarksvaktir vegna ýmissa aðstæðna, m.a. hafi komið upp veikindi eða orlof eða eitthvað slíkt og þá hafi ekki verið hægt að kalla út mannskap sem hafi orðið til þess að í sjálfu sér var nánast hættuástand.

Það er verið að skerða mjög þjónustu. Það er verið að fella niður útivistartíma, það er verið að takmarka heimsóknir, Barnakoti var lokað. Síðan er verið að veita einhverja fjármuni núna og í fjáraukalögum sem eiga að koma þar á móti, en það gerist ekki, þetta verður skorið jafnharðan niður aftur, ef svona mikla fjármuni vantar inn í þetta. Það sem við erum alltaf að reyna að gera í þessum málum er að koma á betrun svo að við þurfum ekki ítrekað að taka á móti sama fólki aftur. Það hefur komið fram hjá þeim gestum sem komið hafa á fund nefndarinnar að því miður komi allt of margir aftur og það sé meðal annars vegna þess að það sé engin virk betrunarstefna, eða að hún sé að minnsta kosti afar lítil. Það snýst um að styrkja fjölskylduna og samtalið við börnin og annað slíkt til að sjá til þess að þessi betrunaraðgerð beri árangur.

Kerfið er líka bjagað, það er fólk sem hefur misstigið sig á lífsleiðinni en fær ekki tækifæri. Það er svo margt sem kannski er ekki stórt sem hægt væri að laga til að gera lífið bærilegra, gera fólk hæfara til að koma út aftur. Ef við komum betrunarúrræðum á gæti orðið mikill sparnaður þannig að í framhaldinu þurfi ekki mikið meira fé í kerfið. Við þurfum bara að breyta því. Við náum vonandi einhverju fram með þessu frumvarpi, að þetta verði í áttina í því. Það er ekki eðlilegt að 500 manns séu að bíða eftir afplánun í fangelsi og við höfum 155 pláss. Það er óásættanlegt. Þó að það lagist eitthvað núna með Hólmsheiði þá höfum við ekki séð til þess að hægt sé að reka það. Okkur vantar fjármuni til að reka það á næstunni. Við stöndum frammi fyrir því að fangelsismálastjóri segir að hann þurfi að loka fangelsum á næsta ári. Ég hef til dæmis áhyggjur af því að fangelsinu á Akureyri verði lokað. Það er afar slæmt fyrir fjölskyldurnar ef við þurfum að fara að selflytja fanga hingað suður. Það er ekki heldur í áttina að betrun að slíkt sé gert.

Svo er hitt, af því að ég þekki persónulega slík dæmi, að þegar staðan er eins og hún er og við notum svona lítið betrun, að maður brýtur af sér, svo líður langur tími, hann er búinn að mennta sig, kominn með fjölskyldu, kominn á allt annan stað í lífinu og átti jafnvel bara þetta eina alvarlega brot að baki, þá þarf hann að fara að afplána. Þá er hann rifinn úr samhengi dagsins í dag til að afplána. Þetta er eitthvað sem við eigum að grípa inn í, þetta er sparnaður, þetta er líka hluti af því að laga kerfið.

Við lögðum til að aukið fé yrði sett til ríkissaksóknara og lögreglunnar til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Um daginn var málþing um ofbeldi úti á landi og verið að horfa út fyrir höfuðborgarsvæðið. Það liggur fyrir að aðstöðumunurinn er gríðarlega mikill. Það er líka dýrt, það er dýrt fyrir þá sem standa að því og kemur í veg fyrir að ofbeldi sé kynnt. Lögreglan var ekki að nota þau úrræði sem hún hafði en nú er farið að gera það; það er verið að nýta bæði nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sveitarfélögin á svæðinu, eins og fyrir norðan, eru að nýta sér það að vinna svolítið saman.

Það sem snýr að okkur sem alþingismönnum er: Hvað þarf að laga í lögum og regluverki til að bæta úr? Heimilisofbeldi er til dæmis ekki sérstaklega skráð á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þó að þar sé nýráðinn sálfræðingur, sem er ætlað að sinna slíkri þjónustu, þá hefur það ekki verið gert. Þetta er eitthvað sem þarf að lagfæra og á ekki að vera flókið mál. En síðan eru það líka praktísk atriði. Það er ráðherranefnd, getum við sagt, sem hefur verið á landssamráðsfundum á grundvelli samstarfsyfirlýsingar varðandi heilbrigðis- og lýðheilsumál, eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gerir, eins og fólk veit til að vinna að aðgerðum gegn ofbeldi í íslensku samfélagi en heilbrigðisráðherra er til dæmis ekki aðili að því. Mér finnst það mjög sérstakt og ég kem til með að inna hann eftir því hvers vegna svo sé ekki.

Það er verið að reyna að kynna þessa Suðurnesjaleið sem á líka að taka á þessu í kerfinu, ég held að það hafi sýnt sig að það hafi gengið vel. En aðgengi að þjónustunni er ótrúlega misjafnt og ekki er hægt að segja að þeir sem búa úti á landi sitji við sama borð. Það eru mörg þannig dæmi. Við höfum mikið rætt Aflið hér á þingi sem eru samtök á Akureyri. Þjónustan er ekki hin sama og hjá opinberum aðilum en það er jafningjaþjónusta sem er nauðsynlegt að hafa líka. Svo eru Sólstafir á Ísafirði; það eru 4 þús. manns sem verið er að sinna á svæðinu. Þau standa vaktina á útihátíð, eru með fræðslu í skólum á svæðinu, halda námskeið fyrir starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar, en hafa mætt andstöðu í starfi sínu af því að það þykir slæmt fyrir ímynd samfélagsins að hafa slíka umræðu. Þetta er allt sjálfboðavinna en þarf samt sem áður alltaf eitthvert fjármagn. Þegar ég horfi yfir fjárveitingar meiri hluta fjárlaganefndar núna þá spyr ég mig: Af hverju eru þessir aðilar, sem eru mjög einstakir og eru að sinna brýnu lýðheilsumáli sem við höfum sameinast um að takast á við, úti í kuldanum? Mér finnst það mjög vond skilaboð.

Við þurfum að bæta lög og reglur. Við þurfum að sjá til þess að skyldur sveitarfélaga, hvað varðar kynbundið ofbeldi, komist inn í sveitarstjórnarlögin með skilgreiningum o.fl. Við þurfum aukið fjármagn, sem við erum að leggja hér til í minni hlutanum, og að búa til heildstæða stefnu hvað varðar baráttu okkar. Það þarf að bæta menntun fagstétta sem standa að þessu og það er hluti af því sem við höfum séð fyrir okkur að þessir fjármunir færu í; og svo þarf að bæta þessa skráningu. Allt er þetta eitthvað sem við komum að hér og getum séð til þess að regluverkið í kringum það sé betra.

Virðulegi forseti. Nú ætla ég aðeins að fara í það mál sem hefur kannski verið rætt mest núna varðandi eldri borgara og öryrkja. Það var fundur hjá okkur í fjárlaganefnd í morgun eins og kunnugt er. Mig langar að vitna í orð forsætisráðherra, sem sagði, með leyfi forseta:

„… fjölmargir sem hafa mátt þola óeðlilegar skerðingar, t.d. eldri borgarar og öryrkjar, þurfa að fá bót sinna mála […] Ísland býr yfir nægum auðlindum, framleiðslugetu og þekkingu til að allir geti notið velferðar. Til þess þarf bara skynsemi við stjórn landsins.“

Ég lít svo á að þetta séu skýr skilaboð frá hæstv. forsætisráðherra. Ég treysti því að hann fylgi þessu eftir og sjái til þess að þetta gerist á þann hátt sem hér hefur verið rætt um. Okkur getur greint á um ýmislegt en ég tek ekki undir það sem kom fram í rökstuðningi fjármálaráðuneytisins þar sem talað er um að með því að hluta af hækkun ársins 2015 sé flýtt til 1. janúar og allri hækkun vegna ársins 2016 flýtt til 1. janúar fái lífeyrisþegar meira í sinn vasa en meðallaunþegi sem fengi borgað samkvæmt sömu launavísitölu án launaskriðs. Þetta er eitthvað sem ég get ekki tekið undir. Ég heyrði ekki betur en eldri borgarar og öryrkjar væru sammála mér um það. Það hefur sýnt sig að svo er.

Á fundinum í morgun, í gögnum sem voru skilin eftir, kom líka fram að tekjuskattsbreytingar sem ríkisstjórnin hefur framkvæmt hafa ekki komið þessum hópi til góða eins og vera bæri. Þau benda á að skynsamlegra hefði verið að 1. skattþrep hefði verið sett í 1,4% í stað þess að gera það við 2. skattþrep. Það hefði skilað þeim sem allra lægstu tekjurnar hafa í kringum 3 þús. kr. á mánuði í staðinn fyrir 500 kr. Það gerir auðvitað 36 þús. kr. á ári í staðinn fyrir tæpar 6 þús. kr. Þetta skiptir allt máli, allar þessar tölur. En það var lækkað um 0,18%, minnir mig, lægra þrepið, en annað þrepið var lækkað um 1,4%. Það er því ýmislegt í þessu sem okkur greinir á um og allt það og við getum verið að munnhöggvast um þetta.

Ég velti líka fyrir mér, og spyr kannski, hvers vegna ákveðin verkefni eru valin umfram önnur. Hér er til dæmis einn liður — ekki stórkostlegur, alls ekki, en maður veltir stundum fyrir sér framsetningu og sundurliðun. Það er sundurliðaður 200 þús. kr. styrkur á Þórbergssetur. Næst á eftir er 59 millj. kr. tímabundið framlag til ýmissa styrkveitinga algerlega ósundurliðað. Ég mundi vilja vita hvort fjárlaganefndarfólk veit hvað er á bak við þessar 59 milljónir.

Ég mundi líka vilja vita hvers vegna Samgöngustofa fékk ekki fjármuni, eins og hún óskaði eftir, þegar kemur að öryggi sjómanna. Eða af hverju göngudeildin á Akureyri, SÁÁ-göngudeildin, þar sem mikið er búið að kalla eftir fjármunum — af hverju ekki er gerð gangskör í því að staðið sé við samninga og SÁÁ sé ekki rekið af Akureyrarbæ eingöngu heldur líka samkvæmt samningi við ríkið. Af hverju er ekki staðið við samninginn við Framleiðnisjóð eins og vera ber? Það er ýmislegt sem maður veltir fyrir sér, hvers vegna þessi forgangsröðun umfram aðra. Peninga sem á að setja í rannsóknir ferðamála — af hverju liggur það ekki bara fyrir að það fari á Rannsóknamiðstöð ferðamála?

Sveitarfélög hafa óskað eftir mjög mörgu eins og vera ber og þegar verið er að tala um tekjustofna sveitarfélaga þá hefur verið rætt um virðisaukaskatt af almenningssamgöngum. Ég veit ekki hvort allir eru meðvitaðir um að það verður þannig nú um áramótin að sveitarfélög þurfa að fara að borga virðisaukaskatt af almenningsamgöngum og öðrum akstri í almannaþágu. Það hefur verið undanþegið, annar akstur í almannaþágu, hvort sem við erum að tala um skólaakstur eða akstur með fatlaða og annað, og ég hefði viljað sjá breytingu á því. Svo hefði ég viljað vera búin að sjá frumvarp um almenningssamgöngurnar sem lagaði það ástand sem nú ríkir vegna þeirra, þegar verið er að keyra ofan í almenningssamgöngur sem sveitarfélögin standa fyrir.

Það eru mörg svona mál, það eru vegamálin sem hér hefur verið komið inn á. Innanríkisráðherra lofaði, það var viðtal við hana á RÚV um það, að milljarður færi í að malbika hringveg um Berufjarðarbotn. Ég hlustaði á hana segja þetta. Af því að náðst hefði sátt um legu vegarins stæði ekkert í vegi fyrir því að bjóða þetta út og eins og komið er er ekki gert ráð fyrir því í fjárlögum. Auðvitað spyr maður sig: Hvers vegna ekki? Það eru ótalmörg mál sem maður veltir fyrir sér og sérstaklega þegar verið er að velja tiltekin verkefni út fyrir samgönguáætlun, út fyrir fjarskiptaáætlun bara af því að tilteknum þingmönnum þykir það við hæfi. Það er verið að velja hafnarframkvæmdir. Óskað var eftir auknu fé í Hafnabótasjóð en ég hef ekki séð beiðni um að það fari í þessar tilteknu hafnir.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna Ríkisútvarpið í restina, það hressir nú alla, og fara aðeins yfir þetta með útvarpsgjaldið. Við höfum rætt þetta oft og mikið og erum sum hver ósammála um þetta, hvort sem um er að ræða fjármuni eða túlkun á hvenær og allt það þá hefur það nú samt sem áður verið þannig að það er komið að þeirri stundu að ég vona að hæstv. menntamálaráðherra fái afgreitt frumvarp um RÚV á morgun, í ríkisstjórn, vegna útvarpsgjaldsins. Eins og við munum var það lögfest í mars 2013 að útvarpsgjald yrði 18.800 kr.; það var ákveðið árið 2011. Síðan eru verðlagsbreytingar eins og gerist og gengur á hverju einasta ári sem færði gjaldið upp í 19.400 kr. árið 2013, það var í bandorminum minnir mig. Síðan kemur fram að á sama tíma er stefnan tekin niður í 16.400 kr. Þegar ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 voru afgreiddar frá þinginu í desember þá var ákveðið að fyrst yrði gjaldið 17.800 kr. og síðan á næsta ári 16.400 kr. Þetta var í því skyni að lækka álögur á heimili og fyrirtæki, 250 millj. kr. var sagt þannig að þessar tölur, sem eins við höfum rætt mikið — og hefur komið fram hjá bæði meiri hluta og minni hluta að RÚV átti á ákveðnum tímapunkti að fá allt gjaldið og þó að hér séu fleiri greiðendur að baki en gert var ráð fyrir þá segir stjórn RÚV og útvarpsstjóri að það dugi ekki til ef halda eigi þeim rekstri sem nú er. Það er svo sjálfstæð ákvörðun hvort við teljum að það eigi að breyta því. Ég hef til dæmis haft þá skoðun að RÚV eigi ekki að vera á auglýsingamarkaði en ég tel að það þurfi að bæta það upp á einhvern hátt; það er bara sérákvörðun.

Ég held að þetta sé ákvörðun sem við þurfum að fara að taka, hvernig við viljum hafa þennan fjölmiðil í almannaþágu. Viljum við það eða ekki? Við viljum það í Vinstri grænum, ég hef fært fyrir því ítarleg rök. Ég tel mikilvægt að geta treyst því að hér sé fjölmiðill sem ekki er háður öflum á tilteknum samkeppnismarkaði heldur séu það einungis fjárlögin hverju sinni sem honum stýra. En ég tel hins vegar afar mikilvægt að hægt sé að ákveða hluti fram í tímann. Þó að það hreyfist eitthvað, það er aldrei svo mikið, fjöldinn sem greiðir þá sé mikilvægt að það ríki ró í kringum slíkan rekstur, að til einhverra tiltekinna ára þurfi ekki á hverju einasta ári að hugleiða hvort féð nægi fyrir næsta ár.

En það stefnir margt í rétta átt. Ég ætla ekkert að neita því. Undanfarin ár hefur hægt og sígandi verið góður bati. Þetta er enn í járnum og nú lækkar afgangurinn enn frekar. Við tölum um forgangsröðun og það er eins og vera ber í pólitík, við höfum misjafnar áherslur. Okkar áherslur hafa verið raktar í ræðu og riti hér á þingi og ég þarf ekki að gera það neitt frekar. Samt hef ég ákveðnar áhyggjur. Ég hef áhyggjur af þensluhvetjandi aðgerðum. Ég hef áhyggjur af því að unga fólkið flytur úr landi o.s.frv. Ég held að það sé sameiginlegt áhugamál okkar allra að skapa þokkalega gott samfélag þó að við höfum á því misjafna sýn. Við viljum að sem flestir hafi það sem best og þess vegna held ég að við þurfum kannski að taka á þeim málum sem við stöndum frammi fyrir nú í dag og hafa verið mest rædd; það eru málefni eldra fólks og öryrkja. Það þarf líka að sjá til þess að þeir hafi sambærileg kjör og við hin og hætta að miða okkur við ástand sem er ekki ríkjandi í dag eins og var hér 2009.