145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

lengd þingfundar.

[10:36]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð þá tillögu forseta og segi það sama og ég sagði í gær og í nótt, ég er tilbúinn hvenær sem er til þess að setjast niður með þingflokksformönnum stjórnarandstöðunnar til að freista þess að að semja um hvenær sé unnt að ljúka þeirri umræðu sem hér er á dagskrá. Stjórnarandstaðan er ekki tilbúin til þess og vill auðvitað vera hér í gamaldags vinnubrögðum sem snúa að því að halda eilífar ræður um þetta mál. En ég vil bara segja að ég styð tillögu sem forseti ber hér upp. Á meðan ekki er unnt að setjast niður og semja um það hvenær mögulegt er (Gripið fram í.) að ljúka þessari umræðu er auðvitað ekkert annað í boði en að halda fundinum áfram.

Stjórnarandstaðan hefur ekki verið tilbúin til þess að gefa einhverjar vísbendingar um hvenær mögulegt sé að ljúka þessari umræðu. Á meðan er auðvitað ekkert annað í boði en að halda þá bara umræðunni áfram. Hér hafa verið fluttar fjölmargar ræður. Ég var hér í alla nótt og þar voru fjölmargar góðar ræður, (Forseti hringir.) skoðanaskipti. Ég hvet forseta til þess að halda þessum fundi áfram og styð þá tillögu sem forseti ber hér upp.