145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

lengd þingfundar.

[10:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég skil það mætavel að virðulegi forseti vilji halda fundi áfram en tek undir að þetta er búin að vera ágæt umræða. Það eina sem maður hefur saknað virkilega úr umræðunni í nótt er hv. þm. Össur Skarphéðinsson. [Hlátur í þingsal.] Rétt eftir að hann hélt hér eldræðu um það að það væri enginn hv. þingmaður maður með mönnum nema vera fram í nóttina fór hann heim að sofa og hefur ekki sést síðan. Ég vonast til þess ef við verðum hérna í nótt að við sjáum hv. þingmann því að það er mun tómlegra í þingsalnum án hans.

Ég held hins vegar að það væri skynsamlegt að við þingflokksformenn mundum fá okkur kaffibolla í dag og sjá hvort einhver flötur er á málum. Mér fannst hjá hv. þingflokksformönnum stjórnarandstöðunnar vera vilji til þess í þeim ræðum sem ég hlustaði á hjá þeim áðan. Alla vega tapa menn ekkert á því að setjast niður og spjalla saman, hvað sem kemur út úr því. Ég skil vel að virðulegi forseti vilji halda fundi áfram.