145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

lengd þingfundar.

[10:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það reyndist nú meira happið fyrir meiri hlutann og ríkisstjórnina að umræðan stendur opin því að það kemur í ljós að menn hafa verið að gleyma milljörðum hér og þar sem þarf að flytja um breytingartillögur. Það hefði verið fullseint ef umræðunni hefði verið lokið. Ríkisstjórnin má nú þakka fyrir, enda var hún greinilega engan veginn tilbúin með afgreiðslu þessara mála. Það var ekki nóg að meiri hluti fjárlaganefndar færi tíu, ellefu daga fram úr eigin starfsáætlun, heldur dugði það ekki einu sinni til því að það dúkka upp milljarðarnir hér og milljarðarnir þar sem gleymdist að taka inn í fjárlögin.

Það var þannig hér í gamla daga þegar oft voru næturfundir, á þeim tímum sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson saknar mjög, eins og við vitum, þá var þó ein regla sem yfirleitt var alltaf haldin, að ekki væru teknar tvær nætur í röð, það væri þannig að það væri ekki nema önnur hver nótt. Nú hefur hæstv. forseti brotið í blað og er að biðja um heimild til að halda þriðja næturfundinn í röð og það á föstudagskvöldi. Það er ekki samkvæmt neinum hefðum sem hér hafa verið. Ég verð að segja alveg eins og er að það eru mjög málefnaleg og sterk rök fyrir því (Forseti hringir.) að forseti gefi nú eitthvað upp um hvað hann ætlar að halda mönnum lengi hér í dag.