145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

lengd þingfundar.

[10:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í lok þessarar fyrstu viku 2. umr. um fjárlagafrumvarpið er nú fullsnemmt að kvarta yfir því að hún sé farin að standa of lengi. Hún hefur staðið langtum skemur en hún gerði til dæmis árið 2012 og hér á Alþingi byggjum við á þeim hefðum sem forseti Alþingis markar, líka þeim sem hann sem þingmaður markaði hér haustið 2012 með 51 klukkustundar umræðu um fjárlagafrumvarpið þá.

Menn undrast hér fjarveru einstakra þingmanna á næturfundum. Ég vil um það segja að ég held að ekkert sé eðlilegra en að fólk vilji bara vera heima hjá fjölskyldum sínum og mökum á næturnar fremur en hér og hitt sé það sem sé óeðlilegt, sú sókn í að vera hér á næturnar að gera ekki neitt. Eina ræðu tókst að flytja hér aðfaranótt gærdagsins. Þá ræðu hefði allt eins mátt halda í björtu og í engu (Forseti hringir.) styttir þessi bægslagangur umræðuna, virðulegur forseti. En að tala saman gæti gert það og ég hvet til þess að menn geri það.