145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

lengd þingfundar.

[10:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er einhver misskilningur í gangi, það er enginn að tala um að hér sé málþóf í gangi. Ég hef ekki minnst á að það sé málþóf í gangi. Ég hef ekki heyrt nokkurn stjórnarliða minnast á það. Það er ekki verið að tala um að takmarka umræðu um fjárlögin, alls ekki. Það eina sem ég er að varpa til þingflokksformanna er að þeir komi sér saman um að gera einhverja áætlun um það hversu langan tíma á að taka í þessa umræðu þannig (Gripið fram í.) að hægt sé að skipuleggja þingstörfin í kringum það. Það eru sex á mælendaskrá, (Gripið fram í.) og þá ætti að vera góður tími fyrir okkur til að klára fyrir kvöldmat í öllu eðlilegu umhverfi, þá klárast þetta kannski fyrir kvöldmat. Forseti er að leita heimildar meðan hann veit ekki betur. Ef það eru bara þessir sex sem eiga eftir að ljúka máli sínu þá er það gott. Ég er alveg viss um það, virðulegur forseti, að þingflokksformenn stjórnarflokkanna eru tilbúnir til þess að tala við það fólk sem af þeirra hálfu (Forseti hringir.) eru á mælendaskrá til að stytta eitthvað málflutning sinn en ef það eru bara þessir sex (Gripið fram í.) á mælendaskrá þá klárum við þetta fyrir kvöldmat. Þá er þetta ekkert vandamál. Þá skil ég ekki vandamálið. (Forseti hringir.) Ábyrgðin er hjá þingflokksformönnum að klára þetta. Við bíðum eftir því hvað þið í minni hlutanum viljið gera. (Forseti hringir.)Hversu langan tíma viljið þið fá til að ljúka umræðum um þetta mál?