145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég ætlaði að eiga orðastað við hv. þm. Ásmund Friðriksson en fékk fréttir af því rétt áður en ég kom hingað upp að hann er ekki á svæðinu. Ég hefði viljað fá að vita það eitthvað fyrr og spyr forseta hvort hv. þingmaður hafi ekki verið látinn vita af því að til stæði að eiga samræður við hann í dag og hvað skýri fjarveru hans. En málið var það að hv. þingmaður hefur lýst því yfir að hann iðrist þess mjög að hafa greitt atkvæði gegn því að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja í þingsal á dögunum, hann harmi það mjög, hann hafi ekki verið búinn að kynna sér málið nægilega vel og óski þess eins að geta bætt ráð sitt og lofar því reyndar í viðtölum við fjölmiðla að það muni hann gera í framtíðinni fái hann til þess tækifæri.

Ég trúi hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni. Ég trúi því að hann sé þessarar skoðunar. Ég trúi því að hann vilji bæta ráð sitt og standa með því fólki sem hann telur vera sitt. Ég trúi því sömuleiðis að það séu fleiri úr hópi stjórnarliða sem eru sömu skoðunar og hv. þm. Ásmundur Friðriksson og óski þess helst í dag eftir atkvæðagreiðsluna á þriðjudaginn að geta sýnt raunverulegan vilja sinn í verki og stutt aldraða og öryrkja með því að bæta kjör þeirra í þinginu eins og til stóð að gera.

Viti menn. Nú fá menn annað tækifæri. Það verðskulda allir annað tækifæri. Það tækifæri mun koma innan örfárra daga þegar minni hlutinn á þingi mun leggja fram sambærilega tillögu um kjarabætur til handa öldruðum og öryrkjum við 3. umr. fjáraukalaga. Þá fá menn tækifæri til að fara af rauða takkanum yfir á þann græna og styðja það mál. (Forseti hringir.) Ég vek athygli á því og hvet stjórnarliða sem hafa í huga (Forseti hringir.) að bæta ráð sitt að óska eftir því að fá að vera meðflutningsmenn að þeirri tillögu og ef ekki þá lýsa því yfir að þeir muni styðja hana.


Efnisorð er vísa í ræðuna